Hvað kostar forsetinn?

Síðan ég kynnti hugmyndafræðina Virkjum Bessastaði árið 1996 hafa tveir forsetar setið á Bessastöðum. Embættið hefur á þessum tíma kostað þjóðina um 10 milljarða króna á núvirði, um 35 þúsund krónur á hvern skattgreiðanda.

Embætti forseta Íslands eins og það er í dag er nánast óþarft í nútímasamfélagi smáþjóðar. Tilvistarkreppa embættisins hefur að undanförnu kristallast í svokölluðum “opinberum heimsóknum” forseta Íslands á milli húsa í eigin heimabyggð, Stór Reykjavíkursvæðinu.

Það er til betri leið

Hugmyndafræðin Virkjum Bessastaði hefur stuðning heimsþekktra fræðimanna í friðarmálum sem telja það raunhæfa möguleika að gera embætti forseta Íslands að boðbera friðar- og lýðræðisþróunar á heimsvísu. Með þessu væri hægt að laða alþjóðastofnanir til landsins, skapa 21 þúsund störf og auka þjóðartekjur um 600 milljarða. Um þetta er fjallað á vefnum forsetakosningar.is

Áhrifavald forseta

Þau áhrif sem forseti Íslands getur haft á þróun alþjóðamála er oft vanmetin hér á landi. Oscar Arias Sánchéz fyrrum forseti Costa Rica og friðarverðlaunahafi Nóbels skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði um verkefnið að Virkja Bessastaði með ofangreindum hætti. Oscar lýsir því í greininni hvernig hann gat sem forseti smáríkis komið á friði í Rómönsku Ameríku. Hann teldi hugmyndir mínar um að virkja Íslenska forsetaembættið á þessum vettvangi hafa raunverulega möguleika til árangurs.

Straumhvörf í alþjóða stjórnmálum

Á næstu árum má búast við verulegum breytingu á hinu alþjóðlega sviði. Aukin hætta er að við drögumst inní aukið styrjaldarástand með aukinni ásókn flóttamanna til landsins. Það er auðvitað óraunhæft að okkar litla þjóðfélag geti tekið á móti öllum þeim fjölda sem hingað mun leita í slíku ástandi. Það þarf að grípa í taumana strax, reyna að koma á friði bæði í Úkraníu og Mið Austurlöndum til að koma í veg fyrir slíka fólksflutninga. Forseti Íslands getur þar haft mikilvæg áhrif ef við virkjum embættið til friðar- og lýðræðisþróunar.

NATO samstarfið gæti horfið á einni nóttu

Það er fásinna að halda að NATO tryggji framtíðar öryggi Íslensku þjóðarinnar. Nýr forseti tekur við embætti í bandaríkjunum á næsta ári. Einn frambjóðenda sem talinn er líklegur til að ná kjöri í annað sinn hefur lýst því yfir að hann vilji draga sig úr NATO. Telur samstarfið ekki þjóð sinni til framdráttar. Við þá aðgerð er sá ímyndaði verndarvængur Íslendinga frá stærsta herveldi heims fokinn út í veður og vind.

Mér var sýnt árið 2025

Það kom fram í bókinni Virkjum Bessastaði sem ég dreifði á öll heimili landsins fyrir 28 árum að mér var sýnt að þetta væri langtíma verkefni og fyrst árið 2025 mætti búast við mikilvægum áfanga í friðarmálum. Þetta skýrir nokkuð þá óbilandi hugsjón og þrautseigju sem ég hef haft til að halda áfram göngunni til Bessastaða þrátt fyrir mikið mótlæti. Hér eitt af þremur ljóðum úr bókinni Virkjum Bessastaði sem lýsti hugljómun minni fyrir 30 árum:

Paradís á jörð

Stóllinn færðist hægt í gegnum mannfjöldann
framhjá pýramídanum mikla
burðarmennirnir silkiklæddir
fólkið var fyllt gleði
loksins var dagur friðar
þetta er árið 2025
loks var Hann hér
skipið stórt sem borg lýsti upp himininn
glitrandi sem perla í sólskini
ekkert hljóð nema fagnarhróp
mannkyns frjálst frá stríðsfjötrum
nú var paradís á jörð.

Ástþór Magnússon


Stuðningur heimsþekktra fræðimanna í friðarmálum við forsetaframboð Ástþórs

Þeir telja allir að hugmyndir Ástþórs um forsetaembættið til friðar- og lýðræðisþróunar í heiminum hafi raunverulega möguleika til árangurs.

Hvernig Ástþór Magnússon vill Virkja Bessastaði með því að gera forseta Íslands að leiðandi afli til friðar í heiminum er hugmyndafræði sem var þróuð í samvinnu við áhrifafólk í friðarmálum og heimsþekkta fræðimenn.

Meðal stofnenda Friðar 2000 árið 1995 var fyrrum forsætisráðherra Íslands Steingrímur Hermannsson sem mætti á stofnfund samtakanna í Háskólabíó þar sem hundruð íslendinga tóku þátt á annað hundrað friðarsamtök um allan heim gerðust meðstofnendur.

Hér eru þrír af helstu frumkvöðlum í friðarmálum heims sem allir hafa lýst yfir stuðningi við foretaframboð Ástþórs Magnússonar.

Prófessor Johan Galtung, virtasti fræðimaður heims í friðarmálum

Johan Galtung kom til Íslands til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframboð Ástþórs Magnússonar. Hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands um hugmyndafræðina að Virkja Bessastaði. Hann fer yfir þetta í myndbandi hér.

galtung_johan_author

Friðarverðlaunahafi, forsetinn sem kom á friði

Oscar Arias Sanchéz, friðarverðlaunahafi Nóbels 1987 og forseti Costa Rica frá 1986-1990, skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsir því að hugmyndir Ástþórs að Virkja Bessastaði til friðar- og lýðræðisþróunar í heiminum séu raunhæfar til árangurs. Hér má lesa greinina

Ástþór hitti Oscar Arias í Costa Rica og þessi mynd birtist af þeim í bókinni Virkjum Bessastaði.

Dietrich Fischer leiðandi prófessor og frumkvöðull í friðarmálum. Ráðgjafi S.Þ.

Prófessor Dietrich Fischer frumkvöðull í friðarmálum var MacArthur fellow in International Peace and Security hjá Princeton háskóla í bandaríkjunum og síðan stofnandi friðarháskóla í Evrópu.

Dietrich kom til Íslands og lýsti yfir stuðningi við hugmyndir Ástþórs um að Virkja Bessastaði í Kastljós viðtali. Dietrich skrifaði grein í Morgunblaðið um hvernig reynt var að grafa undan framboðinu þannig að það minnti á það sem hann varð vitni að undir einræðisherranum Slobodan Milosevic í Júgoslavíu árið 1992.

Greinin úr Morgunblaðinu er birt hér að neðan.

DietrichFischerProfessor

Reynt að þagga niður stuðninginn

Því miður var ýmislegt gert hér á landi til að grafa undan forsetaframboði Ástþórs og kynningum á hugmyndafræðinni að Virkja Bessastaði til friðar- og lýðræðisþróunar.

Eitt öfgafyllsta dæmið var Kastljós viðtal við Dietrich Fischer árið 2004.  Úr viðtalinu var klippt flest það sem skipti máli áður en það var sent út á ríkisfjölmiðlinum. Dietrich skrifaði eftirfarandi í Morgunblaðið:

Þessi leið til að hindra frjálsa og opna umræðu minnir einna helst á herferðina í Júgoslavíu árið 1992 þar sem talsmanni friðar, Milan Panic, var aftrað frá að kynna friðarstefnu sína fyrir kjósendum vegna þess að fjölmiðlum þar í landi var alfarið stjórnað af stuðningsmönnum þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic.

"Ég vonast til að útgáfa viðtalsins við mig verði birt í fullri lengd og óritskoðuð fyrir kosningarnar 26. júní..."

TIL þeirra er málið varðar:

Dagana 11.-13. maí var ég staddur á Íslandi. Ríkissjónvarpið tók 45 mínútna viðtal við mig í tengslum við komandi forsetakosningar hér á landi. Þar sem viðtal þetta fór fram á ensku átti það að vera birt með íslenskum texta. Því var útsendingunni frestað. Ég heyrði rétt í þessu frá Ástþóri Magnússyni (ég styð málstað hans í friðarmálum) og hann tjáði mér að einungis tíu mínútna brot úr viðtalinu hefði verið birt í sjónvarpinu í kvöld og var þar ekki minnst einu orði á áhersluþætti mína um það hvernig forsetaembætti Íslands gæti beitt sér í friðarmálum á alþjóðavettvangi né heldur var minnst á hvað Ástþór Magnússon hyggst gera nái hann kjöri.

Ég nefndi og studdi eftirtalin þrjú markmið hans en heyrði að þau hefðu öll verið tekin út úr viðtalinu:

(1)að koma á fót stofnun í lýðræðisfræðum sem muni stuðla að virkara lýðræði, sem fyrirmynd fyrir alla heimsbyggðina;

(2)að breyta bandarísku herstöðinni á Íslandi í höfuðstöðvar friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna;

(3)koma á friðarstofnun þar sem leitað verður úrlausna á málum deiluaðila víða að úr heiminum þar sem þeir geta hist ásamt reyndum sáttasemjurum.

Einnig benti ég á að þrátt fyrir að Ísland sé lítið land gæti það samt sem áður haft mikið forskot í að stuðla að friði. Ég minntist á tvo forseta í þessu sambandi:

Árið 1973 bauð forseti Finnlands, Urho Kekkonen, öllum ríkisstjórnum í Evrópu til ráðstefnu í Helsinki um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem stóð til 1975, og undirbjó jarðveginn fyrir endalok kalda stríðsins.

Árið 1986 fundaði forseti Costa Rica, Oscar Arias Sanchez, með öðrum forsetum Mið-Ameríku og gerði samkomulag sem undirritað var af öllum forsetunum, sem endaði Contra-stríðið í Nicaragua, og varð að grundvelli annarra svipaðra friðarsáttmála í El Salvador og Guatemala.

Ég skýrði frá því að Ástþór Magnússon myndi, ef hann yrði kosinn forseti Íslands, nota þau tækifæri sem gæfust sökum stöðu hans, til að koma Íslandi á kortið sem uppsprettu friðar í heiminum.

Mér var tjáð að öllum þessum þáttum, sem voru kjarni umræðu minnar, hefði verið sleppt þegar hluti viðtalsins var sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Ég verð að játa að ég er hneykslaður. Þessi leið til að hindra frjálsa og opna umræðu minnir einna helst á herferðina í Júgoslavíu árið 1992 þar sem talsmanni friðar, Milan Panic, var aftrað frá að kynna friðarstefnu sína fyrir kjósendum vegna þess að fjölmiðlum þar í landi var alfarið stjórnað af stuðningsmönnum þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic.

Ég vonast til að útgáfa viðtalsins við mig verði birt í fullri lengd og óritskoðuð fyrir kosningarnar 26. júní, til þess að gefa íslenskum kjósendum kost á að ákveða sjálfir hvort þeir séu sammála eða ósammála þeim skoðunum sem ég lét í ljós, í stað þess að einhver komi fram við kjósendur eins og börn sem ákveðið er fyrir hvað þau mega sjá og hvað ekki.

Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk til að tjá mínar skoðanir, en ég varð samt sem áður fyrir vonbrigðum þegar þær voru afskræmdar með því að klippa burtu kjarnann í máli mínu.

Með bestu kveðjum
Dr. Dietrich Fischer


Sjálfstæði þjóðarinnar í hættu

Vanhæfi og undirlægjuháttur við erlend ríki og stofnanir stefnir sjálfstæði og þjóðaröryggi Íslands í hættu. Við þurfum að standa vörð um að lenda ekki aftur undir erlendu valdi, hvort sem eru erlendar ríkisstjórnir, fyrirtæki eða stofnanir sem geta ógnað sjálfstæði íslendinga.

Samfélagsmiðlar og gervigreind

Það eru ekki aðeins erlendar stofnanir sem ógna sjálfstæði þjóðarinnar. Miðstýrðir samfélagsmiðlar eru byrjaðir að grafa undan lýðræðinu. 

Facebook er orðið svo valdamikið á Íslandi, að nánast engin umræða getur átt sér stað milli kjörinna fulltrúa og þjóðarinnar nema með samþykki Meta. Stjórnendur og eigendur META og gervigreind sem þeir nota nú geta slökkt á mönnum og málefnum eftir geðþótta. 

FacebookDominance (1)

Ógn við sjálfstæða fjölmiðla

Meta hirðir til sín stærsta hluta auglýsingatekna á Íslandi og algerlega skattfrjálst. Þetta erlenda stórfyrirtæki hirðir ekkert um velferð íslensku þjóðarinnar og rekið hér með því markmiði að soga sem mest af fjármunum okkar úr landi án þess að gefa neitt til baka. Facebook sem í auknum mæli stjórnað með gervigreind greiðir ekki krónu í laun eða opinber gjöld á Íslandi þrátt fyrir að reka stærsta fjölmiðil landsins. Sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar eru að lognast út af vegna þessarar óheilbrigðu samkeppni sem nú tröllríður þjóðfélaginu.

Facebook tölvan segir NEI

Ég hef ekki haft aðgang að minni Facebook síðu í nær heilt ár. Ég fæ daglega tölvupósta um að einhver af þeim þúsundum sem fylgja mér á samfélagsmiðlinum hafi sett inn nýja mynd, skrifað póst eða sent mér persónuleg skilaboð. Ég get hins vegar engu svarað. Einnig hef ég ekki getað skrifað ummæli um fréttir eða málefni á íslenskum fréttasíðum því flestar þeirra nota Facebook kommentakerfið. Samband mitt við Ísland er því nánast að fullu rofið þar sem nær 100% þjóðarinnar notar Facebook til daglegra samskipta á Íslandi. 

Á ferðalagi í suður Ameríku síðastliðið vor glataðist tæki með auðkennisappi en Facebook hafði innleitt kröfu um að nota slíkt við innskráningu á samfélagsmiðilinn. Einnig glötuðust innskráningalyklar mínir frá öðrum netveitum og bönkum. Þar var hinsvegar lítið mál að staðfesta innskráningu eftir öðrum leiðum og setja upp nýja app lykla. Hinsvegar segist Facebook ekki geta veitt neina slíka aðstoð. Sem betur fer lenti ég ekki í slíkri uppákomu hjá viðskiptabanka míns fyrirtækis enda hefði það stöðvað reksturinn samstundis og sett samskipti við starfsfólk og viðskiptavini í algert uppnám ef aðgangi að bankareikningum fyrirtækisins hefði verið lokað með sama hætti og Facebook lokaði aðgangi mínum að samfélagsmiðlinum. Þetta hefur sett samskipti mín þar við viðskiptavini og aðra í uppnám.

Facebook verði sektað um þúsund milljarða

Ég hef skrifað Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og vakið athygli á því að Facebook sé að hafa ólögmæt áhrif á lýðræðislegar kosningar á Íslandi í dag með því að útiloka mig sem forsetaframbjóðanda að eiga áframhaldandi og eðlileg samskipti við fylgjendur mína á stærsta samfélagsmiðil landsins. 

Ný Evrópulöggjöf (Digital Services Act) setur skyldur á samfélagsmiðla í markaðsráðandi stöðu m.a. hvað varðar lýðræði. Fyrirtæki sem misnota aðstöðu sína eins og Facebook er að gera gagnvart mér sem frambjóðanda til forseta í lýðræðisríki innan Evrópu, getur átt von á sektum allt að 6% af ársveltu þeirra á heimsvísu. Meta fyrirtækið var með nær 127 milljarða dollara veltu á síðasta ári og gæti því sektin á META numið 7.6 milljörðum dala sem samsvarar þúsund milljörðum íslenskra króna. Hér má lesa bréf mitt til ÖSE.

Íslenskir ráðamenn sofandi á verðinum

Ítrekað á síðasta ári reyndi ég að vekja athygli fyrrum dómsmálaráðherra á hættunni sem væri að skapast af markaðsráðandi stöðu Facebook á Íslandi bæði hvað varðar frjálsa fjölmiðlun og lýðræðisþróun. Svörin sem ég fékk voru á þá leið að lítið væri hægt að gera, það væri ekki hægt að ná neinu vitrænu samtali við Facebook. 

Forseta með framtíðarsýn

Ég vil beita mér fyrir því sem forseti að opna þær dyr sem þarf til að ná vitrænu sambandi við eigendur og stjórnendur Facebook og annarra samfélagsmiðla sem starfa á Íslandi. Ég vil ná samstarfi um að þeir verði látnir greiða eðlileg gjöld af sinni starfsemi hér á landi og að þeim verði skylt að veita eðlilega þjónustu við sína viðskiptavini hér á landi. Þeim verði skylt að hafa hafa virkt símanúmer og aðrar samskiptaleiðir til að tryggja að uppákomur eins og ég að mér skilst þúsundir annarra hafa lent í með lokun á aðgöngum verði ekki látið viðgangast. 

Stjórnum okkur sjálf  

Á næstu árum þarf að koma upp samfélagsmiðli sem þjóðin stjórnar sjálf. Með samhentu þjóðarátaki sem forseti Íslands gæti staðið fyrir ásamt íslenskum fjölmiðlum getum við kastað Facebook út á hafsauga á stuttum tíma og stjórnað okkar sjálf í netheimum. 

Hugbúnaðar lausnirnar eru til staðar sem gera fólki kleift að flytja öll gögn of samskipti yfir á íslenskan samfélagsmiðil.

Á Bessastaði vantar leiðtoga með framtíðarsýn sem sefur ekki á vaktinni. 

Ástþór Magnússon


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband