Kæra vegna brota Ríkisútvarpsins RÚV á útvarpslögum og lögum um Ríkisútvarpið

Skrípalýðræði á ÍslandiVerði ekki bætt úr hlýtur að vakna sú spurning hvort hægt sé að taka þátt í slíku skrípalýðræði sem RÚV og stjórnvöld bjóða þjóðinni.

Hvort ekki þurfi að fá aðstoð Öryggis og Samvinnustofnunar Evrópu að alþingiskosningarnar verði lýstar ólögmætar.  Slíkur er alvarleiki málsins að mati lögmanna Lýðræðishreyfingarinnar. 

Hér er birt efni kæru til Útvarpsréttarnefndar 25. mars 2009:
 
Undirritaður minnir Útvarpsréttarnefnd á fyrri kærur og erindi frá árinu 2004, 2008 og 2009 sem enn hefur ekki verið svarað. Athygli formanns Útvarpsréttarnefndar var vakin á þessu í símtali og að höfðu samráði við hann er þessi kæra nú framsett gegn loforði hans um að taka á málinu:

Ríkisútvarpið RÚV hefur undanfarnar vikur og mánuði ítrekað brotið lög og reglur nú í aðdraganda alþingiskosninga á Lýðræðishreyfingunni. Fjöldi erinda hefur verið sendur til Páls Magnússonar útvarpsstjóra með kvörtunum en hann hefur ekki svarað þeim. Haldinn var fundur með Páli í síðustu viku en þrátt fyrir góð orð er haldið áfram að fótum troða lýðræðislegar jafnaðarreglur og brjóta á Lýðræðishreyfingunni. Hér eru tekin 3 dæmi vegna síðustu daga:
 
1.      Í Silfri Egils s.l. laugardag var rætt við talsmenn Borgarahreyfingarinnar og L-Lista en Lýðræðishreyfingin var sniðgengin þrátt fyrir sérstakar og ítrekaðar beiðnir um aðganga að þættinum til að kynna þar okkar stefnumál og framboð í komandi alþingiskosningum.

2.      Í fréttum RÚV 19.03.09 var rætt við leiðtoga stjórnmálasamtaka um skoðanakannanir. Lýðræðishreyfingunni var synjað um að gefa álit á könnuninni. Við nánari athugun hefur komið í ljós að Ríkisútvarpið kostar þessar kannanir sem unnar eru af Capacent Gallup og áður en öll framboð eru komin fram. Því er um marklausar kannanir að ræða og sem eru framsettar af RÚV þannig að skekkt er lýðræðisleg umræða um framboðin.

3.      Ríkisútvarpið hefur sent Lýðræðishreyfingunni áætlun um „kosningasjónvarp“ og segist hefja kosningaumfjöllun í RÚV 3. Apríl með leiðtogafundi í Sjónvarpssal. Og svo segir: „ATH! Þátttaka í þeim fundi miðast við þau framboð sem bjóða fram á landsvísu og hafa fengið framboð sitt staðfest fyrir 3.apríl!  Næsta „leiðtogafund“ á síðan ekki að halda hjá RÚV fyrr en kvöldið fyrir kjördag þann 24 apríl.

 
Frestur til að skila framboðum til alþingiskosninga 2009 er 11 apríl n.k.  Ríkisútvarpið hefur ákvörðun Alþingis um þau tímamörk að engu og hefur sett sín eigin tímamörk að því virðist til að halda áfram að leggja steina í götu nýrra framboða og halda þeim frá umræðunni. Lýðræðishreyfingin hefur leitað álits lögmanns sem segir Ríkisútvarpið brjóta lög og reglur með framgangi sínum og það sé ólögmætt að útiloka framboð frá umræðunni með þessum hætti.
 
Í 9gr. Útvarpslaga segir:

„Lýðræðislegar grundvallarreglur. Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.“
 

Í lögum um Ríkisútvarpið segir um skyldur stofnunarinnar:
 
4 gr.: „Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.“

5 gr.: „Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“
 
7 gr.: „Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

9 gr: „Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.“
 

Ljóst er hverjum manni sem fer yfir umfjöllun Ríkisútvarpsins RÚV nú í aðdraganda kosninga að ofangreind lög eru þverbrotin af stofnuninni og starfsmönnum hennar.
 
Fram kemur í nýrri skýrslu Öryggis- og Samvinnustofnunar Evrópu að Ríkisútvarpið haldi engar skrár yfir jafnvægi í umfjöllun gagnvart einstökum framboðum. Framganga Ríkisútvarpsins er með þeim hætti að hér er ekki hægt að heyja heiðarlega og lýðræðislega kosningabaráttu.

Þess er krafist að Útvarpsréttarnefnd hlutist án tafar til um eftirtalin atriði:

1.      Lýðræðishreyfingunni verði veittur eðlilegur aðgangur til að kynna sín stefnumál og framboð. Sérstaklega er óskað eftir aðgangi að Silfri Egils n.k. sunnudag.

2.      Ríkisútvarpið hætti kostun og umfjöllun um skoðanakannanir sem gerðar eru áður en framboðin eru fram komin og öll framboð verði tekin með í slíkum könnunum.

3.      Ríkisútvarpið bjóði á leiðtogafund 3 apríl fulltrúum allra framboða sem lýst hafa yfir framboði í komandi kosningum eða þessum fundi sé frestað fram yfir framboðsfrestinn.  Sé fjöldi framboða eitthvert vandamál hlýtur að vera hægt að skipta þessum „leiðtogafundum“ á 2 daga, t.d. 2 og 3 apríl. Við teljum einnig ámælisvert að síðan séu þrjár vikur látnar líða þar til aftur er rætt við leiðtoga framboðanna. Fleiri slíkir fundir hljóta að vera nauðsynlegir fyrir kjósendur til að geta gert upp hug sinn með vitrænum hætti í svo mikilvægu máli sem alþingiskosningum við þær aðstæður sem nú er.
 
Verði ekki bætt úr þessu hlýtur að vakna sú spurning hvort yfir höfuð sé hægt að taka þátt í slíku skrípalýðræði sem Ríkisútvarpið og stjórnvöld bjóða þjóðina. Hvort ekki þurfi frekar að beita kröftunum í að Öryggis og Samvinnustofnun Evrópu aðstoði við að fá alþingiskosningarnar lýstar ólögmætar.  Slíkur er alvarleiki málsins að mati lögmanna Lýðræðishreyfingarinnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í aðdraganda kosninganna 2007 hófst umfjöllun ljósvakamiðlanna þremur vikum áður en framboðsfrestur rann út !

Þetta olli því að Íslandshreyfingin fékk ekki að vera með í fyrsta þættinum á Stöð tvö í norðvesturkjördæmi.

Það kostaði mikla fyrirhöfn að fá að senda þáttakendur í aðra þætti sem fjölluðu um málefnaflokka og kjördæmi en þetta tókst þó og slapp að mestu leyti vegna þess að ekkert annað nýtt framboð var í kosningunum þetta vor en Íslandshreyfingin.

Í norðvesturkjördæmi vorum við eina framboðið sem bauð fram konu. Auðvitað hafði það sitt að segja að geta ekki verið með í fyrsta þættinum hjá Stöð tvö.

Afleiðingin varð sú að allir þingmenn norðvesturkjördæmis eru karlar og þar fékk okkar framboð minnst fylgi vegna þessa æðibunugangs í fjölmiðlun.

Ómar Ragnarsson, 25.3.2009 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband