Bók um forseta prýdd stolnum fjöðrum?

Grein mín í Fréttablaðinu 21.12.08:

Í nýútkominni bók um forseta er sagt að forsetinn hafi tekið að brjósti sér kjörorð mitt í forsetakosningum  og  „Virkjað Bessastaði“.  

Ég geri hér alvarlega athugasemd enda hefur Ólafur Ragnar Grímsson gersamlegast brugðist friðarsinnum sem vildu sjá forseta Íslands sem boðbera friðar á alþjóða vettvangi og Ísland sem mistöð friðar og lýðræðisþróunar. Forsetinn dróg mig og aðra á asnaeyrunum í fjölda ára og hafði að engu áskoranir um að Virkja Bessastaði.

Forsetinn hefur svikið kosningaloforðin gefin í beinum sjónvarpsumræðum í aðdraganda forsetakjörs 1996 um að beita sér í friðarmálum. Þegar ég hef gengið á fund forsetans um þessi mál hefur hann farið undan í flæmingi og í besta falli svarað með kurteislegu froðusnakki. Bréfum mínum og áskorunum Friðar 2000 um að leggja friðarmálum lið hefur ekki verið svarað. Þá neitaði forsetinn að leggja okkur lið að koma hér á fót alþjóðlegum friðarháskóla þar sem m.a. yrði þróað beint lýðræði, þrátt fyrir víðtækan erlendan stuðning við hugmyndina m.a. úr búðum Sameinuðu þjóðanna.  Í skjalasafni forsetaembættisins ættu einnig að finnast aðvaranir okkar frá 2001 gegn því að Íslendingar styðji stríðsáætlanir Bush bandaríkjaforseta.  Forsetinn þagði þunnu hljóði meðan tugþúsundir voru drepnir og limlestir með stuðningi Íslensku þjóðarinnar. Þá minni ég á að fyrsta embættisverk Ólafs Ragnars Grímssonar var að sæma hershöfðingjann á Keflavíkurflugvelli fálkaorðunni.  Fráleitt er að halda því fram að forsetinn hafi tekið að brjósti sér mín kjörorð. Ég óska opinberrar afsökunar frá höfundi bókarinnar Guðjóni Friðrikssyni á slíkri nauðgun á mínum baráttumálum.

Rúmum 12 árum eftir forsetakjörið erum við enn á byrjunarreit. Herstöðin á Keflavíkurflugvelli sem gæti orðið miðstöð alþjóðlegrar friðargæslu er að mestu ónýtt. Óheillakrákan sem náði forsetaembættinu með blekkingum og situr nú fjórða kjörtímabilið á Bessastöðum hefur eytt dýrmætum tíma í stuðning við fjárglæframenn sem stunduðu áhlaup á rótgróin Íslensk fyrirtæki, þar á meðal óskabarn þjóðarinnar, til að strippa út öllu verðmætu í eina stærstu Ponsí svikamillu heims. Þrátt fyrir að aðferðir slíkra fjármálaskúrka séu ekki nýjar af nálinni, lagði hámenntaður stjórnmálafræðingurinn embætti forseta Íslands að veði. Þjóðin situr eftir með sárt ennið og sviðna jörð.

Úr því að ég er að tjá mig um þessa bók er rétt að vekja athygli á því að í hana vantar gersamlega kaflana um moldvörpustarfsemi forsetans og hans stuðningsmanna. Mín fyrstu kynni af þeim óheiðarleika var í aðdraganda forsetakosninganna 1996, þegar ÓRG í eigin persónu rakkaði mig niður við útlendinga. Þar sem þarna á meðal voru aðilar sem við báðir þekktum bárust mér fregnir af þessu. Þá kom til mín fólk sem var að heyra þann róburð frá starfsmönnum á framboðsskrifstofu ÓRG við Hverfisgötu, að ég hefði hagnast á vopnasmygli. Við seinni forsetakjör létu moldvörpur forsetans sitt ekki eftir liggja. Kosningabaráttan 2004 hófst með grátsöng frá Ísafirði um að grunnskólabörn yrðu af skólaferðalagi ef ég færi í framboð vegna þess gífurlega kostnaðar sem myndi leggjast á sveitarfélagið ef lýðurinn fengi að mæta í skólana þar að kjósa. Upphaf ársins 2008 sló þó öll fyrri met þegar fjölmiðlar í eigu stuðningsmanna forsetans voru nýttir dag eftir dag til að hylla forsetann og grafa undan hugsanlegum mótframboðum. Síðan kórónað með því að draga oddvita yfirkjörstjórnar Reykjavíkur Norður á skjáinn til að telja þjóðinni trú um það að það væri nauðgun á lýðræðinu ef mótframboð bærist gegn forsetanum.


mbl.is Ólafur Ragnar fer fram á launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband