18.4.2012 | 16:14
Kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna Fjölmiðlanefndar
Engin svör hafa borist frá Fjölmiðlanefnd við fyrirspurn um beina aðkomu stjórnarformanns RÚV að vali á forsetaframbjóðanda og fleiri spurningum um mismunun fjölmiðla í umfjöllun.
Erlendur fræðimaður líkti RÚV í aðdraganda forsetakosninga árið 2004 við ríkisfjölmiðla í gömlu Júgóslavíu undir Slobodan Milosevic árið 1992. Viljum við láta þekkja Ísland af því að fjölmiðlar hér skekki lýðræðisþróun og greiði fyrir klíkuskap og misnotkun valds?
Er við hæfi að stjórnarformaður RÚV lýsi velþóknun á einu forsetaframboði og tefli því beint fram gegn öðrum? Væri ekki rétt til að gæta hlutleysis RÚV að stjórnarformaðurinn víkji sæti? Er við hæfi að þátttastjórnendur á RÚV tali um sum framboð sem alvöru og önnur ekki? Á ekki slíkur aðili að víkja úr ríkisreknum fjölmiðlum í sameign þjóðarinnar?
Er ekki hlutverk Fjölmiðlanefndar að gæta að fjölmiðlar veiti óhlutdrægar upplýsingar á jafnréttisgrundvelli? Er við hæfi að stórir Íslenskir fjölmiðlar séu reknir sem áróðursvélar með hugmyndafræði úr smiðju Göbbels til að stjórna vali þjóðarinnar á forseta?
Er hægt að bjóða þjóðinni upp á að nýstofnuð fjölmiðlanefnd taki hlutverk sitt með léttvægum hætti og meðhöndli ný fjölmiðlalög sem grín? Til hvers eru settar 39,1 milljón á fjárlögum 2012 í rekstur fjölmiðlanefndar ef það er ekki til að nefndin sinni eftirlitsskyldu sinni?
Íslensk þjóð hefur gengið í gegnum efnahagsleg áföll undanfarin ár sem má rekja beint til misnotkunar valds og klíkuskapar í stjórnsýslunni. Endurreisnin ber merki áframhaldandi klíkuskapar. Milljarðaskuldir forréttindastéttar eru nú afskrifaðar á kostnað almennings og atvinnutækjum ráðstafað með leynisamningum til fárra útvaldra rétt eins og áður.
Þjóðin má ekki glata því tækifæri sem liggur í vali á forseta. Réttur maður á Bessastöðum getur spyrnt við fótum til að uppræta spillinguna. Er ásættanlegt að fjölmiðlar stýri umræðunni fyrir sérhagsmunaöflin og blekki almenning til að kjósa varðhund kerfisins í embætti forseta Íslands?
Ég skora á Umboðsmann Alþingis að beita áhrifum sínum í þessu máli án tafar og áður en annað stórslys verður hér í stjórnsýslunni á kostnað þjóðarinnar.
Hér er fyrirspurnin til Fjölmiðlanefndar frá 26 mars s.l.:
Fjölmiðlanefnd
Borgartún 21
105 Reykjavík
27 mars 2012.
Fyrirspurn til Fjölmiðlanefndar vegna forsetakosninga:
Með tilvísun til yfirlýsinga og fyrirlestrar sem fluttur var af framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar undir heitinu Ógna rangfærslur og hlutdrægar fréttir lýðræðinu? óskast álit Fjölmiðlanefndar á því hvort eftirfarandi samrýmist lögum og reglum um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla og þá sérstaklega hvað varðar RÚV þar sem þeir fjölmiðlar eru í eigu ríkisins:
1. Árið 2004 og rússneskar forsetakosningar á Íslandi í boði RÚV:
Verður árið 2012 endurtekning á árinu 2004 en þá voru fjölmiðlarnir nánast lokaðir forsetaframbjóðendum. Einn þriggja frambjóðanda hafði þá sérstöðu að eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum frá forsetaembættinu. Aðrir fengu ekki að kynna sín stefnumál með sama hætti. Engir umræðuþættir með frambjóðendum áttu sér stað í aðdraganda kosninganna fyrr nokkrum klukkustundum fyrir opnun kjörstaða. Niðurstaðan var svokölluð "rússnesk" kosning enda dæmigert um kosningar í einræðisríkjum. Erlendur fræðimaður líkti RÚV árið 2004 við ríkisfjölmiðla í gömlu Júgóslavíu undir Slobodan Milosevic árið 1992. http://frettir.forsetakosningar.is/fr%C3%A9ttir1/2012/03/14/hvatning-til-%C3%BAtvarpsstj%C3%B3ra
2. Er við hæfi að stjórnarformaður RÚV grafi undan einstökum framboðum?
Samrýmist það stöðu stjórnarformanns ríkisfjölmiðlanna RÚV að vera þátttakandi í hóp sem kallar sig "Betri valkost á Bessastaði" og taka þannig beina afstöðu gegn öðrum framboðum sem þegar er búið að tilkynna? Sjá http://www.vb.is/frettir/71074/ og tilvitnun: Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrv. fréttakona og nú stjórnarformaður RÚV.
3. Er aðal þáttastjórnandi RÚV hlutdrægur og með hatursáróður?
Samrýmist það stöðu helsta stjórnanda umræðuþátta RÚV Egils Helgasonar, og sem einnig hefur verið þáttastjórnandi í kosningasjónvarpi RÚV, að skrifa á bloggsíðu sína eftir að komin eru fram tvö mótframboð gegn sitjandi forseta: "Enn er ekki komið í ljós hvort Ólafur Ragnar Grímsson fær alvöru mótframbjóðendur"
http://silfuregils.eyjan.is/2012/03/20/sumarkosningar-um-stjornarskra-og-forseta/
Gæti það flokkast undir hatursáróður í skilningi 27gr. fjölmiðlalaga að gefa í skyn með þessum hætti að undirritaður sé ekki alvöru frambjóðandi? Með þessu orðavali er ótvírætt verið að lítillækka þau framboð sem fram eru komin. Í þessu sambandi er einnig rétt að vekja athygli á því að undirritaður hefur á liðnum árum verið útilokaður frá þættinum Silfur Egils og synjað um tækifæri að kynna stefnumál framboða sinna þar á meðan aðrir frambjóðendur fengu greiðan aðgang eins og t.d. fyrir síðustu alþingiskosningar. Þátturinn hefur á sama tíma leyft niðrandi tilvitnanir um undirritaðann m.a. af einum þeirra sem nú hefur verið teflt fram sem mögulegum frambjóðanda af hópnum Betri valkost á Bessastaði. Sjá hér eina af mörgum kærum vegna Egils Helgasonar og RÚV sem ber nákvæmlega uppá 2 ár í dag þann 27 mars:
http://frettavakt.blog.is/users/a3/frettavakt/files/_tvarpsrettarnefnd-kaera-290309.pdf
4. Álitsgjöfum telft fram í RÚV til að grafa undan forsetaframboði
Eftir að undirritaður svo og annar einstaklingur hafa opinberlega lýst yfir framboðum sínum í komandi forsetakosningum ræddi RÚV við álitsgjafa, gamlan stjórnmálafræðingi, í þætti sem RÚV kallar Spegillinn og sem á að vera spegill líðandi stundar. Vísvitandi var þar farið með þær rangfærslur að sitjandi forseti verði sjálfkjörinn því enginn muni þora í mótframboð.
RÚV sá ekki ástæðu til að fjalla um þá leiðréttingu sem ég sendi þeim strax daginn eftir enda virðist um hreinan pólitískan spuna að ræða af hálfu fréttastofu RÚV sem ekki er einsdæmi:
http://frettir.forsetakosningar.is/fr%C3%A9ttir1/2012/03/17/%C3%A1litsgjafar-r%C3%BAv-ekki-me%C3%B0-%C3%A1-n%C3%B3tunum
5. Ræðst umfjöllun af því hvort starfsmenn RÚV verða í framboði?
Er Fjölmiðlanefnd kunnugt með hvaða hætti ríkisfjölmiðlarnir RÚV ætla að standa að kynningu framboða í komandi forsetakosningum. Ræðst það af því hvort einn eða fleiri fréttamenn RÚV verða meðal frambjóðenda en hópurinn sem stjórnarformaður fjölmiðlafyrirtækisins stendur á bakvið hefur nú þegar telft fram tveimur slíkum. Við síðustu alþingiskosningar var einu nýju framboði hampað umfram annað. Formaður þess framboðs var einmitt starfsmaður RÚV sem tók sér leyfi frá störfum og svaraði síma um skiptiborð RÚV á kosningaferðum sínum.
6. Hvernig mun Fjölmiðlanefnd standa vaktina um lýðræðislegar grundvallarreglur?
Mun Fjölmiðlanefnd gæta þess að fjölmiðlarnir sinni lýðræðislegum grundvallarreglum samkvæmt 26gr. fjölmiðlalaga í aðdraganda forsetakosninga 2012 og hvernig ráðgerir Fjölmiðlanefnd að standa vörð um neðangreindar greinar úr lögum um fjölmiðla í komandi forsetakosningum?
Lög um fjölmiðla
2011 nr. 38 20. apríl
26. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur.
Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.
27. gr. Bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi.
Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðar háttsemi. Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.
Forseti Íslands í boði fjölmiðlafyrirtækis
Áhugavert er í þessu sambandi að sitjandi forseta var komið í embætti af fjölmiðlafyrirtækinu Norðurljósum sem rak áður Stöð2, Bylgjuna, Fréttablaðið og DV og naut hann þar stuðnings annarra þeirrar fréttakvenna nú orðuð við framboð að því að virðist á vegum RÚV eða stjórnenda þess. Þá var fréttastjóri Stöðvar 2 einmitt sá sem nú er útvarpsstjóri RÚV.
Reynsla undirritaðs af þátttöku í kosningum á Íslandi er að fjölmiðlar hafa verið með eindæmum hlutdrægir sem beinir þátttakendur og gerendur í atburðarrásinni. Þess vegna var athygli undirritaðs sérstaklega vakin á þeim orðum sem framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar lét falla nýverið í erindi á Akureyri um að breytingar til hins verra hafi orðið á umfjöllun RÚV eftir sameiningu fréttastofu útvarps og sjónvarps og því að vegna mikilvægis fjölmiðla sem fjórða valdsins verður að vera hafið yfir allan vafa að pólitík mengi ekki störf fjölmiðlanefndar. En hvað með ríkisfjölmiðlana sjálfa, er allt í sóma með að þeir reki hlutdrægan pólitískan áróður fyrir menn og málefni sem eru stjórnendum RÚV velþóknanlegir en útiloki aðra?
Virðingarfyllst,
Ástþór Magnússon
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Facebook
Athugasemdir
Gott hjá þér Ástþór það er greinilega slagsíða og halli á umfjöllum fjölmiðla, þar með talin Ruv á umfjöllun um forsetaframboð, þar sem aðallega er fjallað um eina manneskju þ.e. þeirra eigin starfskonu. Þetta er öllum ljóst hvort sem menn viðurkenna það eða ekki.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.4.2012 kl. 16:28
Góður Ástþór, afar góður.
Ég heyrði það í útvarpinu í dag, þótt stutt væri.
Jón Valur Jensson, 18.4.2012 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.