18.6.2010 | 12:51
Óreiða ríkisstofnana hindrar útsendingar Lýðvarpsins
...engu líkara en formaður þessarar stofnunar beri skjalasafn hennar í rassvasanum segir í bréfi Lýðvarpsins til úrskurðanefndar Póst og fjarskiptamála vegna deilu um útvarpstíðnina FM100.5 sem var endurúthlutað öðrum aðila þrátt fyrir að útvarpsleyfi Lýðvarpsins væri í fullu gildi. Nú er komið í ljós að ástæðan var óreiða í starfsháttum og skjalasafni Útvarpsréttarnefndar og Póst og fjarskiptastofnunar.
Lögmenn Lýðvarpsins telja endurúthlutun tíðninnar ekki standast lög og reglur um vandaða stjórnsýslu og beri úrskurðarnefndinni því að taka tíðnina FM100.5 af Kananum til að Lýðvarpið sem er hinn lögmæti rétthafi tíðninnar geti hafið útsendingar að nýju. Í bréfi Lýðvarpsins segir m.a.:
Rétt er að nefna í þessu sambandi að samskipti um málið bæði við PFS og Útvarpsréttarnefnd hafa verið nokkuð furðuleg og hefur viðmót þessara stofnana einkennst af því að reyna að réttlæta sitt klúður og heimfæra ábyrgð á innanhús mistökum þessara stofnana yfir á Lýðræðishreyfinguna. Þessa gætir m.a. í því að í byrjun er reynt að halda því fram af PFS og Útvarpsréttarnefnd að um tvö aðskilin útvarpsleyfi hafi verið að ræða. Í seinni bréfum stofnanna virðast ríkisstofnanirnar ekki lengur reyna að leysa úr klúðri sínu með slíkum töfrabrögðum um tvö aðskilin leyfi gagnvart Lýðræðishreyfingunni enda eins og við höfum bent þeim á er slíkt auðvitað fjarstæða enda ekki hægt að veita tvö útvarpsleyfi fyrir sama útsendingarsvæði fyrir sömu útvarpsstöð með sama kallmerki. Þá eru einnig furðuleg samskiptin við Útvarpsréttarnefnd um skjalavörslu stofnunarinnar og vinnuferli. Eins og fram kemur í meðfylgjandi fylgiskjölum er engu líkara en formaður þessarar stofnunar beri skjalasafn hennar í rassvasanum.
PFS reynir hinsvegar nýja útgáfu af töfrabrögðum til að komast hjá því að taka ábyrgð á eigin klúðri. Nú er sagt að það hafi verið á ábyrgð Lýðræðishreyfingarinnar að tíðnileyfinu yrði breytt til samræmis við framlengt útvarpsleyfi. Hinsvegar er sá hængur á þessar afstöðu PFS að þetta gengur þvert á hefðir og verkfallsreglur stofnunarinnar eins og fram kemur í svari PFS 15.06.10 sem afhjúpar óreiðu og óvönduð vinnubrögð PFS.
Einnig eru það forkastanleg vinnubrögð af starfsmönnum PFS að setja rekstur einnar útvarpsstöðvar í uppnám með fyrirskipun um flutning á milljóna króna útvarpsmastri en veita síðan öðrum aðila leyfi til að senda út frá sama mastri á sömu tíðninni á meðan Lýðvarpið bíður eftir úrskurði PFS um nýjan stað fyrir mastrið. Nýji aðilinn, útvarpsstöðin Kaninn, réðist síðan inní aðstöðu Lýðvarpsins og olli skemmdum á sendibúnaði. PFS hefur valdið Lýðvarpinu milljóna tjóni með rekstrartruflunum vegna þessarar skipunar um að færa útsendingarmastrið og þeirri yfirlýsingu starfsmanna PFS að Lýðvarpið geti átt von á því að slökkva þurfi fyrirvarslaust á sendinum á einhverjum tímabilum komi kvartanir frá aðilum á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þetta hátterni Póst og fjarskipastofnunar er óvönduð stjórnsýsla með eindæmum sem vekur jafnvel upp spurningar hvort starfsmenn og stjórnendur PFS séu yfir höfuð starfi sínu vaxnir.
Bréfið má lesa í heild á fréttavakt Lýðvarpsins www.frettavakt.is
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það hlaut að vera,hef ekki náð Lýðvarpinu í háa herrans tíð.
Helga Kristjánsdóttir, 19.6.2010 kl. 05:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.