Opið bréf til ÓRG forseta Íslands: Móðgandi niðurlagsorð þín í viðtali á Skjá1

Ólafur Ragnar Grímsson
Bessastöðum

16. apríl 2010.

Móðgandi niðurlagsorð þín í viðtali á Skjá1

Hr. forseti,

Ég ætla að biðja þig að láta af því að ákveða orð eða athafnir fyrir mína hönd eða annarra hugsanlegra frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Einnig krefst ég þess að forsetinn gefi út opinberlega afsökunarbeiðni á ummælum sínum í viðtalsþætti við Sölva á Skjá1 þann 14 apríl s.l.

Í þessu viðtali sagðist þú ekki hafa sagt af þér embætti sökum þess að þú vildir ekki stefna þjóðinni í forsetakosningar og val á nýjum þjóðhöfðingja, þar sem hver sem hann hefði verið hefði örugglega ekki gengið þá götu að ganga gegn ríkisstjórninni í Icesave málinu. Þessi yfirlýsing er ekki við hæfi og í raun móðgun við forsetaframbjóðendur og þjóðina sjálfa.

Ég hef t.d. lýst yfir mjög afdráttarlausum skoðunum um forsetaembættið í ræðu og riti og þar á meðal þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að virkja þann öryggisventil sem málskotsréttur forseta er með ábyrgum hætti í stórum og mikilvægum málum. Það hefði því ekki vafist fyrir mér að hafna Icesave lögunum staðfestingar. Ég hefði óskað eftir því strax í upphafi þegar fyrri lög um þetta mál bárust forseta Íslands, að þeim yrði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig hefði ég með minni embættisfærslu á Bessastöðum tryggt mun betri stöðu Íslendinga í þessu mikilvæga máli.

Það hlýtur að teljast óeðlilegt að einstaklingur sem var keyptur, já ég segi og stend við þau orð “keyptur” í embætti forseta Íslands af helstu útrásarvíkingum, og sem hefur verið andlit svikahrappanna gagnvart erlendum þjóðum um árabil, sitji áfram sem þjóðhöfðingi Íslendinga.

Ég minni á að í aðdraganda forsetakosninganna árið 2004, ritaði ég OSCE (Öryggis og Samvinnustofnun Evrópu) á annan tug kvartana yfir því hvernig fjölmiðlar í eigu stuðningsmanna þinna voru misnotaðir til að blekkja þjóðina í aðdraganda kosninga. Eins og þar kemur fram var lýðræðið fótum troðið með grófri misnotkun fjölmiðla eins og þekkist varla nema í einræðisríkjum, til að draga upp af þér ranga og fegraða mynd á meðan mitt framboð og persóna var dregin niður í ræsið af fjölmiðlum í eigu sömu manna.

Ég minni á þá staðreynd að helstu starfsmenn og kosningastjórar þinna forsetaframboða 1996 og 2004 voru jafnframt starfsmenn og eða tengdust mjög náið ofangreindum stuðningsmönnum þínum og fjölmiðlum þeirra.   

Að lokum vil ég minna aftur á erindi mín send til þín sjálfs í aðdraganda forsetakosninganna 2004 að þú hafir misnotað forsetaembættið við synjun fjölmiðlalaga. Þar gekkst þú erinda útrásarvíkinga sem höfðu tangarhald á flestum fjölmiðlum landins og sem voru á þessum tíma notaðir óspart í þína þágu til að tryggja þér “rússneskar” kosningar á Íslandi.

Ég skora á þig að segja af þér án tafar og þvælast ekki lengur fyrir því endurreisnarstarfi sem þarf nú að eiga sér stað hjá Íslensku þjóðinni.

Virðingarfyllst,
Ástþór Magnússon
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband