29.12.2008 | 16:56
Bréfið til Geir sem Mogginn neitaði að birta
Hér er bréf sem ég sendi til Geir Haarde 22. október s.l. og Morgunblaðið neitaði að birta:
Hr. Forsætisráðherra, nú er nóg komið!
Þinn tími er kominn Geir. Kominn tími á þig að fara frá völdum og víkja til hliðar áður en þú veldur Sjálfstæðisflokknum og Íslensku þjóðinni meiri skaða en þegar er orðið.
Ráðning pólitísks bankastjóra án undangenginna auglýsinga á tvöföldum ráðherralaunum hlýtur að vera dropinn sem fyllir mælinn hjá þjóðinni.
Óhugnarlegt er að horfa uppá hvernig þið hreinlega kunnið ekki að skammast ykkar. Orð þín eru gersamlega marklaus. Innihaldslaust froðusnakk af leiksviði Iðnó til að blekkja þjóðina. Er ráðning bankastjórans á ofurlaunum dæmi um að snúa bökum saman?
Hefði ekki verið nær að setja þak á laun opinberra starfsmanna í þeim hamförum sem nú dynja yfir okkur og lækka þá hæstlaunuðu? Hvað er það sem réttlætir hærri laun en almennt tíðkast á Íslandi til þeirra fallista sem nú stjórna landinu?
Atvinnurekstur landsmanna er að stórum hluta að stöðvast af völdum þeirra fjárglæframanna sem þið félagar í forystu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lyftuð í hæstu hæðir á síðasta áratug og færðuð þjóðargullið á silfurfötum nánast án endurgjalds.
Ég byrjaði að vara þjóðina við ykkur strax í aðdraganda forsetakosninga árið 1996 þegar þið voruð að gefa milljarða úr sameign þjóðarinnar til óprúttinna braskara sem hurfu með peningana úr sjávarútvegi og jafnvel til útlanda.
Síðan var haldið áfram og fjármálastofnanir einkavæddar með innistæðulausum keðjubréfum flokksvina á meðan þú drottnaðir yfir Fjármálaráðuneytinu í eigin persónu. Og nú þykist þú ætla að leiða rannsóknir á eigin misgjörðum.
Ég hef áður bent á Stjórnarráðið í fjölmiðlum og þá landráðamenn sem þar hafa setið undanfarin áratug. Ég kallaði eftir flengingu Davíðs á Lækjartorgi. Nú er þjóðin einnig farin að sjá í gegnum ykkar spuna. Kannski ætti að flengja ykkur báða á Lækjartorgi.
Á sama tíma og þitt teymi ræður bankastjóra úr einum nánast gjaldþrota banka í annan gjaldþrota banka á ofurlaunum sem eru í engu samræmi við stöðuna, ráðskist þið með eignir þessara félaga algerlega án óhlutdrægrar skoðunar eða eftirlits. Nánast eins og bankaræningjar ráðnir í lögregluna að rannsaka eigin misferli. Þá er ætlast til að við almennir ríkisborgarar og Íslensk fyrirtæki bíðum eftir okkar peningum sem ekki fást greiddir úr sömu gjaldþrota bönkum. Ég læt ekki bjóða mér svona rugl.
Ég hef í dag sent þér reikning uppá Kr. 419,583 sem eru dagvextir á þær 30 milljónir sem átti að leggja inná reikning míns fyrirtækis á Íslandi, frá einum af þínum gjaldþrota bönkum þann 3 október s.l. Miðast við 26,5% taxta sem Seðlabanki Íslands auglýsir á vefsíðu sinni í dag. Úr því að þið teljið ykkur geta greitt tæp 100 þúsund fyrir hvern vinnudag til nýja bankastjórans, ætti þér að vera leikur einn að greiða örlitla dráttarvexti á okkar peninga, fjármuni sem því miður voru látnir liggja í bankanum óhreyfðir eftir þínum ófyrirleitnu og fölsku tilmælum til þjóðarinnar vikurnar fyrir þrot.
Ég vona að þú sjáir sóma þinn í að biðjast lausnar fyrir þína ríkisstjórn án tafar. Forsendur þíns pólitíska umboðs eru brosnar, þín kosningaloforð fallin og gjaldþrota. Haldir þú áfram að spila með fjármuni okkar ertu engu skárri en aðrir Íslenskir Ponzi-Scheme fjárglæframenn sem nú þegar eru komnir á terror listann hjá Bresku krúnunni. Áframhald á þessu skipar ríkisstjórn þinni í sess með alræmdum lýðræðis-glæponum eins og afríkumanninum Mugabe.
Hvað varðar þrátíu milljón króna kröfu mína og dráttarvexti, áskil ég mér allan rétt til að mæta á þitt heimili og innheimta skuldina hjá þér persónulega fáist hún ekki greidd án tafar, og sitjir þú áfram á valdastól eftir daginn í dag. Ég er þess fullviss að fjöldi annarra kröfuhafa verða meira en tilbúnir að slást í þá för með mér veljir þú þann kostinn að drottna áfram með valdnýðslu yfir gjaldþrota búinu í trássi við velsæmi, lög og rétt. Með slíku hátterni hlýtur þú að verða persónulega ábyrgur gagnvart kröfum í búið.
Virðingarfyllst
Ástþór Magnússon
Kviknakinn Geir og gullspilið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held að það sé ekki við Geir einann að sakast, við höfum hér sitjandi forseta sem hefur verið tuskubrúða auðmanna sem settu bankana á hausinn með blekkingum og lygavef. Með þessum mönnum var svo forsetinn að skála í lúxus flugvélunum, ég myndi líka senda Ólafi reikninginn.
Elvar Atli Konráðsson, 29.12.2008 kl. 17:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.