RÚV standi vörð um lýðræðið

RÚV standi vörð um lýðræðið

Bréf til Páls Magnússonar útvarpsstjóra, 2. desember 2008:

Lesa PDF skjalið - Innheldur einnig skýringamyndir

Undanfarnar vikur hef ég fylgst með mótmælum á Austurvelli og Arnarhóli, og Borgarafundum í Iðnó og Háskólabíó.

Ég tók eftir því s.l. laugardag að fundarstjóri á Austurvelli kallaði eftir beinni útsendingu RÚV frá næstu mótmælum svo þjóðin gæti öll fylgst með, því þetta væru "raddir fólksins". Tveimur dögum áður var grein birt í DV undir fyrirsögninni: "Mótmælendur í hár saman" og þar fjallað um miðstýringu eins eða þriggja einstaklinga á vali ræðumanna. Viðmælendur blaðsins voru ósáttir við að fá ekki aðgang að ræðupallinum.

Ég sannreyndi þetta sjálfur með því að hringja og óska þess að rödd mín fengi að ávarpa mótmælendur en því var synjað eins og hjá viðmælendum DV. Fyrst á þeim forsendum að ég hafi verið virkur þátttakandi í landspólitíkinni. Ég benti á þá staðreynd að ég hafi ekki í áratugi verið flokksbundinn, aldrei setið á þingi eða gegnt öðru opinberu embætti. Þá var því svarað til að ég væri of þekkt persóna til að ávarpa mótmælendur.

S.l. laugardag mætti ég á Austurvöll og bað fundarstjóra að lesa3 setningar til að vekja athygli á að fólk væri velkomið að loknum mótmælunum á Austurvelli á kaffifund í Hressingarskálanum þar sem í boði væri opinn ræðupallur og frjálsar umræður. Því var synjað með þeim orðum að fjöldi slíkra beiðna hefðu borist og þeim væri öllum synjað. Nú væri kominn samstarfshópur um mótmælaaðgerðirnar á Austurvelli og fundarstjóri yrði að lúta þeirra vilja. Þeir, sem ég ekki veit hverjir eru, ráði því hvað fer í loftið.

Fullveldisdaginn 1. desember gekk ég á Arnarhól og á móti mér tók kraftmikil áróðusræðu ungs manns gegn inngöngu í Efnahagsbandalag Evrópu. Eitthvað virðist ég í einfeldni minni hafa misskilið mótmælin. Mér hafði skilist að um þverpólitísk mótmæli væri að ræða með sameiginlegri kröfu um afsögn ríkisstjórnar, við tæki utanþingsstjórn skipuð sérfræðingum í björgunarstarfið, uppstokkun í Seðlabankanum og kosningar. Mér hafði einhvernvegin skilist að sjálfskipaðir fulltrúar þjóðarinnar á Arnarhóli væru að krefjast þess að þjóðin fengi að kjósa og þannig velja sín baráttumál. Rétt er að taka það fram að ég hef ekki myndað mér skoðun með eða á móti inngöngu í Efnahagsbandalagið, en vil gjarnan fá umræðuna í gang og yfirvegaða ákvörðun þjóðarinnar um framhaldið.

Ég kynntist einnig Borgarafundinum. Í Háskólabíó varð ég vitni að því að vörubílstjóra var meinað að bera upp spurningu. Fólk í kringum þennan mann tjáði mér að einhversskonar fyrirmæli hefðu verið gefin út að hleypa honum ekki í loftið. Þar sem ég hafði skráð mig fljótlega eftir fyrsta fundinn á póstlista hjá borgarfundur.org, hef ég fengið sendan póst og hvatningar að kynna fundina. Einnig fundarboð á skipulagsfund. Ég mætti á slíkan fund tveimur dögum eftir stóra fundinn í Háskólabíó. Þar var borin upp sú tillaga (tek það fram að þessi tillagan var ekki frá mér né tengist mér á nokkurn hátt) að skipta út fundarstjórum með reglulegu millibili. Ég hlustaði á þetta og lagði lítið til málanna annað en ef ætti að skipta út fundarstjóranum væri ekki úr vegi að kona yrði valin næst. Tillaga og umræður um breytingar á fundarstjórn var kveðin í kútinn eftir að hinn ágæti leikstjóri borgarafundanna sagðist ekki myndi mæta á næsta fund ef þetta ætti að þróast í einhver formleg fundarsköp. Ekki veit ég hvort það tengist þessari umræðu en ég var snarlega tekinn af póstlista borgarafundarins og fékk ekki sent næsta fundarboð. Frétti frá öðrum að sá fundur var haldinn 1. desember.

Ég er ekki alveg að átta mig á því hvað er í gangi við þessi mótmæli og borgarafundi. Hversvegna ekki er staðið að þessu með óhlutdrægum og lýðræðislegum hætti. Ég hef tekið eftir því að á meðan sumum frummælenda er hafnað af skipuleggjendum, hafa aðrir margsinnis flutt ávörp. Svo ég gerði smá könnun á þeim frummælendum sem hafa komið fram til að kanna hvort einhverjar pólitískar ástæður kynnu að liggja hér að baki.

Könnun mín virðist því miður leiða í ljóst að verið sé að misnota vettvang mótmælenda. Síðastliðinn mánuð hafa 70,6% frummælenda á Austurvelli og Arnarhóli tengst Vinstri Grænum. 11,8% tengast öðrum stjórnmálahreyfingum en hjá 17,6% finn ég ekki augljósar tengingar við stjórnmálaflokka. Svipað mynstur er á borgarafundunum í Iðnó og Háskólabíó, þar er meirihlutinn eða 53% sem tengjast Vinstri Grænum. Með þessu bréfi fylgja nánari upplýsingar um þetta.

Um leið og ég vil þakka RÚV fyrir að hafa veitt landsmönnum tækifæri til að fylgjast með mótmælunum, tel ég nauðsynlegt að staldrað sé við og RÚV standi vörð um opna og lýðræðislega umræðu. Slíkt mætti gera með samkomulagi aðila um endurskipulagningu á því hvernig staðið er að vali á frummælendum á mótmælafundum og borgarafundum og jafnræðisreglu sé gætt. Nauðsynlegt að RÚV veiti öllum þeim félagasamtökum sem sem hafa eitthvað fram að færa í umræðuna, jafnan aðgang að útsendingatíma í ríkisfjölmiðlunum. Við hjá Lýðræðishreyfingunni gætum t.d. hugsað okkur að vera með vikulegan og þverpólitískan umræðuþátt í sjónvarpi þar sem m.a. yrði fjallað um þá möguleika að þróa beint og milliliðalaust lýðræði á Íslandi. Við erum tilbúin að kosta gerð slíks þáttar á eigin forsendum og biðjum RÚV ekki um annað en útsendingartímann. Virðingarfyllst,

Lýðræðishreyfingin

Ástþór Magnússon

____________________________________________

Lýðræðishreyfingin - www.lydveldi.is - Sími 4962004

 


mbl.is Endurvakin sjálfstæðisbarátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög athyglisverð skrif hjá þér, Ástþór.

Jón Valur Jensson, 2.12.2008 kl. 05:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband