Morgunblaðið varar við árás á Ísland

Svokallaðir sérfræðingar í varnarmálum flykkjast nú hver af öðrum í fjölmiðla með áróður hergagnaiðnaðirns að þjóðir Evrópu verði að setja stóraukin fjáraustur í hermangið.

Tveimur árum eftir að allt sauð uppúr milli Úkraníu og Rússlands birtir Morgunblaðið grein sem segir: “Líklegt að ráðist yrði á Keflavíkurstöðina í stríði” þar sem Fabian Hoffmann “sérfræðingur í varnarmálum og eldflaugahernaði” segir að miklar líkur séu á því að Rússar myndu ráðast á Ísland ef til átaka kemur á milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins.

Ég vakti ítekað athygli á þessari hættu í aðdraganda forsetakosninga árið 2016 og skoraði á þjóðina að grípa strax til aðgerða til að afstýra því að við myndum leiðast í styrjöld við Rússland.

Íslenskir ráðmenn í fullum herskrúða

Í stað þess að grípa til aðgerða til friðar klæddust íslenskir ráðamenn fullum herskrúða og greiddu fyrir vopnaflutninga með skattfé Íslensku þjóðarinnar til stríðs við Rússland. Utanríkisráðherra gerðist sölumaður dauðans fyrir bandaríska hergagnaframleiðendur. Í nafni Íslensku þjóðarinnar hitti hún bandaríska hershöfðingja í Washington og ferðaðist síðan með þeirra veganesti til leiðtoga Evrópuríkja að þrýsta á aukna fjármuni í hermangið.

Ég hef ítrekað undanfarinn áratug varað við því að ef styrjöld brýst út við Rússland gæti það þróast í kjarnorkustyrjöld á milli stórveldanna og slíkt gæti gerst á tiltölulega stuttum tíma.

Gæti rústað Reykjavík

Flugvöllurinn í Keflavík sem jafnframt gegnir hlutverki herflugvallar svo og kafbátastöðin í Hvalfirði eru augljóst skotmörk í slíkum átökum. Verði kjarnorkusprengjum skotið á þessar herstöðvar sem við Íslendingar hýsum með bandarísku herliði, gæti það lagt Reykjavík í eyði vegna geislavirkni sem líklegt er að myndi færast yfir höfuðborgarsvæðið. Við erum að horfa hér á ógn sem gæti útrýmt stórum hluta Íslensku þjóðarinnar.

Á margföldum hljóðhraða

Kjarnorkusprengjur myndu líklegast berast utan úr geimnum með langdrægum flaugum á margföldum hljóðhraða. Það er í hraun hlægilegur áróður að halda því fram að við getum varist slíku með einhverjum skotvopnum bandarískra hergagnaframleiðenda.

Það er kominn tími til að þjóðin taki á þessum málaflokki af festu og alvöru og hætti þátttöku í stríðleikjum úr smiðjum bandarískra hergagnaframleiðenda sem eru stærsta ógnin við heimsfriðinn í dag. Við getum byrjað á að Virkja Bessastaði til friðarmála, að forseti Íslands í stað þess að tala fyrir hernaði leiði menn saman til viðræðna um varanlegan frið.

Afstýrum þriðju heimsstyrjöldinni

Við þurfum samhent átak grasrótar, atvinnulífs og stjórnmála til að afstýra þriðju heimsstyrjöldinni sem er nú í fæðingu og mun hellast yfir okkur á næstu árum verði haldið áfram á sömu braut.

Hér eru myndbönd um þetta málefni sem voru birt á vef mínum forsetakosningar.is í aðdraganda forsetakosninga árið 2016:

Rússar vara við heimstyrjöld - Heimsfriðurinn hangir á bláþræði

Þjóðaröryggistefna sem ógnar Íslendingum

Vaknaðu núna!

Höfundur er forsetaframbjóðandi.

 

Hvað kostar forsetinn?

Síðan ég kynnti hugmyndafræðina Virkjum Bessastaði árið 1996 hafa tveir forsetar setið á Bessastöðum. Embættið hefur á þessum tíma kostað þjóðina um 10 milljarða króna á núvirði, um 35 þúsund krónur á hvern skattgreiðanda.

Embætti forseta Íslands eins og það er í dag er nánast óþarft í nútímasamfélagi smáþjóðar. Tilvistarkreppa embættisins hefur að undanförnu kristallast í svokölluðum “opinberum heimsóknum” forseta Íslands á milli húsa í eigin heimabyggð, Stór Reykjavíkursvæðinu.

Það er til betri leið

Hugmyndafræðin Virkjum Bessastaði hefur stuðning heimsþekktra fræðimanna í friðarmálum sem telja það raunhæfa möguleika að gera embætti forseta Íslands að boðbera friðar- og lýðræðisþróunar á heimsvísu. Með þessu væri hægt að laða alþjóðastofnanir til landsins, skapa 21 þúsund störf og auka þjóðartekjur um 600 milljarða. Um þetta er fjallað á vefnum forsetakosningar.is

Áhrifavald forseta

Þau áhrif sem forseti Íslands getur haft á þróun alþjóðamála er oft vanmetin hér á landi. Oscar Arias Sánchéz fyrrum forseti Costa Rica og friðarverðlaunahafi Nóbels skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði um verkefnið að Virkja Bessastaði með ofangreindum hætti. Oscar lýsir því í greininni hvernig hann gat sem forseti smáríkis komið á friði í Rómönsku Ameríku. Hann teldi hugmyndir mínar um að virkja Íslenska forsetaembættið á þessum vettvangi hafa raunverulega möguleika til árangurs.

Straumhvörf í alþjóða stjórnmálum

Á næstu árum má búast við verulegum breytingu á hinu alþjóðlega sviði. Aukin hætta er að við drögumst inní aukið styrjaldarástand með aukinni ásókn flóttamanna til landsins. Það er auðvitað óraunhæft að okkar litla þjóðfélag geti tekið á móti öllum þeim fjölda sem hingað mun leita í slíku ástandi. Það þarf að grípa í taumana strax, reyna að koma á friði bæði í Úkraníu og Mið Austurlöndum til að koma í veg fyrir slíka fólksflutninga. Forseti Íslands getur þar haft mikilvæg áhrif ef við virkjum embættið til friðar- og lýðræðisþróunar.

NATO samstarfið gæti horfið á einni nóttu

Það er fásinna að halda að NATO tryggji framtíðar öryggi Íslensku þjóðarinnar. Nýr forseti tekur við embætti í bandaríkjunum á næsta ári. Einn frambjóðenda sem talinn er líklegur til að ná kjöri í annað sinn hefur lýst því yfir að hann vilji draga sig úr NATO. Telur samstarfið ekki þjóð sinni til framdráttar. Við þá aðgerð er sá ímyndaði verndarvængur Íslendinga frá stærsta herveldi heims fokinn út í veður og vind.

Mér var sýnt árið 2025

Það kom fram í bókinni Virkjum Bessastaði sem ég dreifði á öll heimili landsins fyrir 28 árum að mér var sýnt að þetta væri langtíma verkefni og fyrst árið 2025 mætti búast við mikilvægum áfanga í friðarmálum. Þetta skýrir nokkuð þá óbilandi hugsjón og þrautseigju sem ég hef haft til að halda áfram göngunni til Bessastaða þrátt fyrir mikið mótlæti. Hér eitt af þremur ljóðum úr bókinni Virkjum Bessastaði sem lýsti hugljómun minni fyrir 30 árum:

Paradís á jörð

Stóllinn færðist hægt í gegnum mannfjöldann
framhjá pýramídanum mikla
burðarmennirnir silkiklæddir
fólkið var fyllt gleði
loksins var dagur friðar
þetta er árið 2025
loks var Hann hér
skipið stórt sem borg lýsti upp himininn
glitrandi sem perla í sólskini
ekkert hljóð nema fagnarhróp
mannkyns frjálst frá stríðsfjötrum
nú var paradís á jörð.

Ástþór Magnússon


Stuðningur heimsþekktra fræðimanna í friðarmálum við forsetaframboð Ástþórs

Þeir telja allir að hugmyndir Ástþórs um forsetaembættið til friðar- og lýðræðisþróunar í heiminum hafi raunverulega möguleika til árangurs.

Hvernig Ástþór Magnússon vill Virkja Bessastaði með því að gera forseta Íslands að leiðandi afli til friðar í heiminum er hugmyndafræði sem var þróuð í samvinnu við áhrifafólk í friðarmálum og heimsþekkta fræðimenn.

Meðal stofnenda Friðar 2000 árið 1995 var fyrrum forsætisráðherra Íslands Steingrímur Hermannsson sem mætti á stofnfund samtakanna í Háskólabíó þar sem hundruð íslendinga tóku þátt á annað hundrað friðarsamtök um allan heim gerðust meðstofnendur.

Hér eru þrír af helstu frumkvöðlum í friðarmálum heims sem allir hafa lýst yfir stuðningi við foretaframboð Ástþórs Magnússonar.

Prófessor Johan Galtung, virtasti fræðimaður heims í friðarmálum

Johan Galtung kom til Íslands til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframboð Ástþórs Magnússonar. Hann hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands um hugmyndafræðina að Virkja Bessastaði. Hann fer yfir þetta í myndbandi hér.

galtung_johan_author

Friðarverðlaunahafi, forsetinn sem kom á friði

Oscar Arias Sanchéz, friðarverðlaunahafi Nóbels 1987 og forseti Costa Rica frá 1986-1990, skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsir því að hugmyndir Ástþórs að Virkja Bessastaði til friðar- og lýðræðisþróunar í heiminum séu raunhæfar til árangurs. Hér má lesa greinina

Ástþór hitti Oscar Arias í Costa Rica og þessi mynd birtist af þeim í bókinni Virkjum Bessastaði.

Dietrich Fischer leiðandi prófessor og frumkvöðull í friðarmálum. Ráðgjafi S.Þ.

Prófessor Dietrich Fischer frumkvöðull í friðarmálum var MacArthur fellow in International Peace and Security hjá Princeton háskóla í bandaríkjunum og síðan stofnandi friðarháskóla í Evrópu.

Dietrich kom til Íslands og lýsti yfir stuðningi við hugmyndir Ástþórs um að Virkja Bessastaði í Kastljós viðtali. Dietrich skrifaði grein í Morgunblaðið um hvernig reynt var að grafa undan framboðinu þannig að það minnti á það sem hann varð vitni að undir einræðisherranum Slobodan Milosevic í Júgoslavíu árið 1992.

Greinin úr Morgunblaðinu er birt hér að neðan.

DietrichFischerProfessor

Reynt að þagga niður stuðninginn

Því miður var ýmislegt gert hér á landi til að grafa undan forsetaframboði Ástþórs og kynningum á hugmyndafræðinni að Virkja Bessastaði til friðar- og lýðræðisþróunar.

Eitt öfgafyllsta dæmið var Kastljós viðtal við Dietrich Fischer árið 2004.  Úr viðtalinu var klippt flest það sem skipti máli áður en það var sent út á ríkisfjölmiðlinum. Dietrich skrifaði eftirfarandi í Morgunblaðið:

Þessi leið til að hindra frjálsa og opna umræðu minnir einna helst á herferðina í Júgoslavíu árið 1992 þar sem talsmanni friðar, Milan Panic, var aftrað frá að kynna friðarstefnu sína fyrir kjósendum vegna þess að fjölmiðlum þar í landi var alfarið stjórnað af stuðningsmönnum þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic.

"Ég vonast til að útgáfa viðtalsins við mig verði birt í fullri lengd og óritskoðuð fyrir kosningarnar 26. júní..."

TIL þeirra er málið varðar:

Dagana 11.-13. maí var ég staddur á Íslandi. Ríkissjónvarpið tók 45 mínútna viðtal við mig í tengslum við komandi forsetakosningar hér á landi. Þar sem viðtal þetta fór fram á ensku átti það að vera birt með íslenskum texta. Því var útsendingunni frestað. Ég heyrði rétt í þessu frá Ástþóri Magnússyni (ég styð málstað hans í friðarmálum) og hann tjáði mér að einungis tíu mínútna brot úr viðtalinu hefði verið birt í sjónvarpinu í kvöld og var þar ekki minnst einu orði á áhersluþætti mína um það hvernig forsetaembætti Íslands gæti beitt sér í friðarmálum á alþjóðavettvangi né heldur var minnst á hvað Ástþór Magnússon hyggst gera nái hann kjöri.

Ég nefndi og studdi eftirtalin þrjú markmið hans en heyrði að þau hefðu öll verið tekin út úr viðtalinu:

(1)að koma á fót stofnun í lýðræðisfræðum sem muni stuðla að virkara lýðræði, sem fyrirmynd fyrir alla heimsbyggðina;

(2)að breyta bandarísku herstöðinni á Íslandi í höfuðstöðvar friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna;

(3)koma á friðarstofnun þar sem leitað verður úrlausna á málum deiluaðila víða að úr heiminum þar sem þeir geta hist ásamt reyndum sáttasemjurum.

Einnig benti ég á að þrátt fyrir að Ísland sé lítið land gæti það samt sem áður haft mikið forskot í að stuðla að friði. Ég minntist á tvo forseta í þessu sambandi:

Árið 1973 bauð forseti Finnlands, Urho Kekkonen, öllum ríkisstjórnum í Evrópu til ráðstefnu í Helsinki um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem stóð til 1975, og undirbjó jarðveginn fyrir endalok kalda stríðsins.

Árið 1986 fundaði forseti Costa Rica, Oscar Arias Sanchez, með öðrum forsetum Mið-Ameríku og gerði samkomulag sem undirritað var af öllum forsetunum, sem endaði Contra-stríðið í Nicaragua, og varð að grundvelli annarra svipaðra friðarsáttmála í El Salvador og Guatemala.

Ég skýrði frá því að Ástþór Magnússon myndi, ef hann yrði kosinn forseti Íslands, nota þau tækifæri sem gæfust sökum stöðu hans, til að koma Íslandi á kortið sem uppsprettu friðar í heiminum.

Mér var tjáð að öllum þessum þáttum, sem voru kjarni umræðu minnar, hefði verið sleppt þegar hluti viðtalsins var sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Ég verð að játa að ég er hneykslaður. Þessi leið til að hindra frjálsa og opna umræðu minnir einna helst á herferðina í Júgoslavíu árið 1992 þar sem talsmanni friðar, Milan Panic, var aftrað frá að kynna friðarstefnu sína fyrir kjósendum vegna þess að fjölmiðlum þar í landi var alfarið stjórnað af stuðningsmönnum þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic.

Ég vonast til að útgáfa viðtalsins við mig verði birt í fullri lengd og óritskoðuð fyrir kosningarnar 26. júní, til þess að gefa íslenskum kjósendum kost á að ákveða sjálfir hvort þeir séu sammála eða ósammála þeim skoðunum sem ég lét í ljós, í stað þess að einhver komi fram við kjósendur eins og börn sem ákveðið er fyrir hvað þau mega sjá og hvað ekki.

Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk til að tjá mínar skoðanir, en ég varð samt sem áður fyrir vonbrigðum þegar þær voru afskræmdar með því að klippa burtu kjarnann í máli mínu.

Með bestu kveðjum
Dr. Dietrich Fischer


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband