Sprengjuregn í friðargöngu, friður á Álftanesi

Það var ekki mjög friðsamt á Ingólfstorgi eftir friðargöngu frá Hlemmi. Saman með köldum vindum og rigningarslyddu dundi á fólkinu pólitískt sprengjuregn Birnu Þórðardóttur ræðumanns.

Þrátt fyrir að Birna hafi látið nokkuð ófriðlega í ræðustólnum, þá kom hún inná nokkra ágæta púnkta eins og þá staðreynd að friður þrífst ekki við óréttlæti.

Mér fannst það t.d. mjög óréttmætt þegar forráðamenn hinnar árlegu friðargöngu meinuðu mér að segja nokkur orð þarna á Ingólfstorgi þremur dögum eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur tók fyrir kröfu ákæruvaldsins að dæma mig í 16 ára fangelsi fyrir að benda á hættuna af því að flytja vopn og hermenn til Írak í flugvélum Icelandair.

Varnarorð mín áttu ekki uppá pallborðið hvorki hjá forsætis- né utanríkisráðherra, sem sendu ríkislögreglustjórann að sækja mig ofaní miðbæ um miðja nótt og stinga mér í fangelsi hið snarasta. Á Litla Hrauni fékk ég að dúsa í marga daga í algerri einangrun á milli þess að vera fluttur inná skrifstofur ríkislögreglustjórans í þriðju gráðu yfirheyrslur þar sem mér voru gerð gylliboð um að bera orð mín til baka því annars yrði þaggað niður í mér með 16 ára fangelsi var fullyrt!

Birna minntist á þetta með vopnaflutningana, eins og ég vildi gera hér um árið, og gefa fundargestum smá innsýn í hvað gekk á þarna hjá lögreglunni. En forráðamenn friðargöngunnar meinuðu mér alfarið að tjá mig, ekki einu sinni í þrjár mínútur. Þá mætti ég á Ingólfstorg klæddur í jólasveinabúning og með trefil fyrir talandanum. Þannig stóð ég fyrir aftan ræðumanninn. Þetta vakti litla hrifningu forráðamanna friðargöngunnar sem sumir reyndu að stugga mér í burtu best þeir gátu.

Birna kom einnig inná það í ræðu sinni að að eiga í nokkrum vandræðum með að finna út hvað friður er. Hér get ég hjálpað Birnu og er hún velkomin hvenær sem er í friðarsetrið Vogaseli 1 til að leita aðstoðar Friðar 2000 við þessari spurningu. Kannski hún sjái til þess að Friður 2000 fái að koma að friðargöngunni næsta ár, og þá get ég upplýst fundarmenn um hvað friður er.

Bogi og friðarkúlanRaunverulegan frið í hjarta fann ég hinsvegar í vikunnni á Álftanesi, hjá honum Boga Jónssyni þúsundþjalarsmið. Saknaði þess að sjá ekki Birnu þar þegar Bogi afhjúpaði friðarkúluna sem á eru rituð tákn helstu trúarbragða heims.

Friðarkúlan á sér uppruna í draum Boga fyrir nokkrum árum þar sem honum var falið að gera einhvern hlut til að túlka á sinn hátt að við erum öll íbúar í sömu íbúð, jörðinni okkar. Á friðarkúlunni eru raufar sem fólk getur sett í óskir sínar um frið á jörð og betra líf. Í stuttu ávarpi sem Bogi hélt við athöfnina sagði hann: "Reyndu á hverjum degi að búa þér til fallega fortíð".

Ég lagði til ljósmyndasamkeppni um friðarkúluna. Besta myndin, eða bestu myndirnar, yrðu síðan valdar til útgáfu jólakorta um næstu jól. Ég hef heitið Boga stuðningi mínum við að koma upp vefsíðu þar sem jafnt áhuga- sem og atvinnuljósmyndarar geta sent inn myndir og þar hægt að velja bestu myndirnar af friðarkúlunni. Ég er einnig tilbúinn að skoða þann möguleika að styrkja útgáfu jólakortanna sé þess óskað. Við ræddum að ljósmyndakeppnin yrði í gangi frammá næsta haust til að sem flestir hefðu tækifæri til þátttöku og hægt að ljósmynda friðarkúluna við allar árstíðir og birtuskilyrði.

Ég skora á sem flesta að skoða friðarkúluna og setja þar inn óskir sínar og bænir. Friðarkúlan er á einstaklega fallegum stað við bæinn Hlíði á Álftanesi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Nú líkar mér við þig. Samt finnst mér ástandið aumt þegar forsseta friðarins er bannað að tjá sig um friðinn sem hann dreymir um.

Offari, 23.12.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Bogi Jónsson

Ég þakka falleg orð í minn garð og tek fagnandi hendi þeirri aðstoð sem þú býður mér

verðum í sambandi strax á nýu ári

bestu friðar kveðjur

Bogi Jónsson, 23.12.2008 kl. 22:03

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég skil ekki hvernig þú getur gert einhverjar kröfur um að þú fáir að vera ræðumaður á friðarsamkomum sem þú stofnar ekki til. Kemur þér alls ekki til hugar að sumir óski ekki eftir nærveru þinni?

Finnst þér í alvörunni eðlileg að þú plantir þér upp fyrir aftan ræðumann á friðarráðstefnu í jólasveinabúningi með trefil fyrir munninum? 

Haukur Nikulásson, 23.12.2008 kl. 22:14

4 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Haukur, í ljósi þeirra aðstæðna sem þarna höfðu skapast var það argasti dónaskapur og algert tillitleysi af hálfu aðstandenda friðargöngunnar að leyfa mér ekki að segja þarna nokkur orð. Eins og Birna lýsti í ræðu sinni í dag getur ekki friður ríkt um óréttlæti. Þarna var ég beittur óréttlæti og lét í ljós þá skoðun mína með táknrænum hætti.

Ég vil minna þig að yfir 1000 manns stofnuðu Frið 2000. Félaginu var rústað þegar lögreglan ruddist hér inn, með 12 manna lið sem var hér í marga daga á meðan ég gisti fangageymslur, tók héðan allar tölvur, hvortssem var bókhaldsgögn, félagaskrár, samskiptaforrit og annað. Tölvunum var ekki skilað í fleiri ár. Fólk hræddist jafnvel að mæta á fundi eftir þetta hjá Friði 2000 af hættunni að lögreglan myndi byrja að fylgjast með þeim.

Ástþór Magnússon Wium, 23.12.2008 kl. 22:19

5 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Haukur gleymdi að nefna að aðstandendur friðargöngunnar hafa ekki boðið Friði 2000 að koma að skipulagningu göngunnar og í raun sniðgengið okkar samtök þótt fjöldi okkar félagsmanna hafi oft mætt þarna í gegnum árin. Þrátt fyrir að töluvert hafi borið á okkar samtökum í umræðunni, flogið friðarflug með jólagjafir frá Íslenskum börnum til stríðssvæða, framleitt stuttmyndir í sjónvarp gegn ofbeldi, haldið námskeið gegn ofbeldi, tekið þátt í ýmsum ráðstefnum bæði hér heima og erlendis, séum í Íslensku símaskránni og vorum lengi vel með Íslenska heimasíðu um friðarmál. Mér er kunnugt um að fjöldi þessa fólks sem þarna stendur að baki voru stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar og sáu rautt yfir þeim hugmyndum okkar að Virkja Bessastaði til friðarmála hve furðulegt sem það nú er að friðarsinnar séu mótfallnir slíku. Ég hef lent í heitum samræðum um þetta mál við einstaklinga innan þessara hreyfinga.

Ástþór Magnússon Wium, 23.12.2008 kl. 22:29

6 Smámynd: Björn Heiðdal

Kæri jólasveinn(Ástþór eða Ástarpungur),

Þú hefur svo sannarlega komið þínum sjónarmiðum á framfæri í gegnum árum.  Held meira að segja að hvernig hefur verið tekið á móti þér af ráðamönnum og sjálfu DV hafi hjálpið þér.  Fyrir vikið hefur þú verið meira í fréttunum og það sem þú segir.

Það munaði engu að ég hefði kosið þig hér um árið.  Alveg þangað til ég fattaði að þú lítur niður á dverga og ert ekki í sjálfstæðisflokknum.  Vonandi gengur þér allt í haginn á komandi ári og guð blessi fjölskyldu þína og þjóðina. 

Björn Heiðdal, 23.12.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband