Burt með fituna, lokum sendiráðum Íslands

Við Íslendingar erum aðeins þrjú hundruð þúsund og höfum ekki efni á geðbiluðum ríkisrekstri eins og hann hefur verið aukin á undanförnu árum með sendiráðum, bitlingum og rugli hvers konar um að við séum alveg enstök og rík. Erum við rík í dag? (Hjálmar Jónsson í Morgunblaðinu)

Ég er sammála að við getum skorið mikið niður. Verulegan hluta minnar starfsævi hef ég búið erlendis. Á s.l. 35 árum hef ég lítið samneyti haft við Íslenskt sendiráð eða þá sem þar starfa. Þó má ekki gleyma þegar ég ásamt fleiri námsmönnum í London vorum að gera okkur glaðan dag og við það tækifæri sóttum góðar veigar í sendiherrabústaðinn í London. Dóttir sendiherrans var þá með í hópnum og bæði fús og viljug að opna hirslurnar að fínu veigunum kostaðar af Íslenskum skattborgurum sem runnu í ómældu magni ljúft niður hálsa fátækra námsmanna.

Á tímabili teygði atvinnurekstur minn sig um mörg lönd Evrópu. Íslensk sendiráð komu hvergi nærri okkar markaðssetningu sem náði frá Bretlandi til austustu og syðstu horna Evrópu. Einhverntíman reyndi ég að hafa samband við Íslenskt sendiráð í þessu sambandi, en þeir áttu hvorki fólk né kunnáttu til að aðstoða í því sambandi.

Ég hef í raun aldrei skilið hvað Íslensku sendiráðin gera og hvernig þessi hópur fólks sem þar er eyðir dögunum, svo lítið hef ég orðið var við störf þeirra á erlendri grund. Þegar dóttir mína vantaði vegabréf með örstuttum fyrirvara og ég leitaði þá til sendiráða Íslands í Danmörku og í Þýskalandi, var mér bent á að hafa samband beint heim til Reykjavíkur því sendiráðin gætu ekki slíkra galdra. Vegabréfið fékkst afgreitt samdæmurs hér heima, sent með áhafnarmeðlim á næsta flugi seinnipartinn og komið í hendur dóttur minnar erlendis næsta dag. 

Eins og þróunin er orðin á samskiptum milli landa í dag, sýnist mér engin þörf á sendiráðum á erlendri grund. Við getum átt samtöl, sent skjöl og myndir í rauntíma um allan heim. Með einfaldri lagasetningu eða regluverki frá Utanríkisráðuneytinu, væri hægt að koma á fót neyðarpóstleið fyrir nauðsynlegustu ferðagögn eins og vegabréf og greiðslukort. Slíkur póstur gæti farið á milli starfsstöðva flugfélaganna en þau eru með samstarfsaðila í þeim löndum sem flogið er til héðan.

Seljum eignir sendiráðanna og köllum starfsfólk þeirra heim. Hér er að finna næg verkefni fyrir hæft fólk í þeirri uppstokkun sem þarf að verða á ríkisstjórn, alþingi og helstu stofnunum.

En ég kalla eftir umræðu um þetta mál frá Jóni Baldvin Hannibalssyni og öðrum sem hafa starfað innan utanríkisþjónustunnar. Þeir þekkja innviðina betur en svona farfuglar eins og ég sem hafa bara horft á þetta utanfrá þótt hafi einu sinni á ævinni fengist að gægjast í vínskáp sendiherra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband