17.8.2011 | 10:58
Óreiðumaður sækir um stöðu hæstaréttardómara
Benedikt Bogason sem ekki hefur getað rekið Útvarpsréttarnefnd með sómasamlegum hætti en stofnunin hefur verið með einstaka óreiðu á skjölum og samskiptum við aðrar stofnanir undir hans stjórn, vill nú fá stöðu við Hæstarétt Íslands.
Er ekki nóg komið af svona óreiðumönnum í stjórnsýslunni? Ég hef í dag sent Ögmundi Jónassyni Innanríkisráðherra erindi með fylgiskjölum þar sem athygli ráðherrans er vakin á því að Benedikt Bogason gat ekki rekið eina af minnstu opinberu stofnunum stjórnsýslunnar með sómasamlegum hætti. Hann á því ekkert erindi í stöðu Hæstaréttardómara.
Kynni mín af störfum Benedikts Bogasonar voru í gegnum samskipti Lýðvarpsins við Útvarpsréttarnefnd en Benedikt hefur um árabil verið formaður nefndarinnar.
Útvarpsréttarnefnd klúðraði stórt í samskiptum sínum við Póst og fjarskiptastofnun hvað varðaði útvarpsleyfi Lýðvarpsins sem varð til þess að tíðninni FM100.5 var úthlutað öðrum aðila á meðan Lýðvarpið er með útvarpsleyfi í fullu gildi og er enn eða þar til í janúar á næsta ári! Póst og fjarskiptastofnun hefur kennt Útvarpsréttarnefnd undir stjórn Benedikts Bogasonar um "mistökin" að ekki er hægt að senda út á tíðninni sem Lýðvarpinu var úthlutað og milljóna sendibúnaður okkar stilltur á frá verksmiðju. Þeir segja orsökina í óreiðu á samskiptum og skjalavörslu Útvarpsréttarnefndar.
Uppákoman innan þeirrar örstofnunar sem Benedikt var treyst fyrir að stjórna hefur valdið litlu fyrirtæki mínu tugmilljóna tjóni. Hópur fólks þar á meðal ungt og upprennandi fjölmiðlafólk varð einnig fyrir fjárhagstjóni þegar það missti af atvinnutækifærum við útvarpsstöðina. Benedikt Bogason hinsvegar lætur sér þetta í léttu rúmi liggja og hefur ekki einu sinni svarað spurningum um málið né veitt umbeðin gögn. Almúginn getur bara étið það sem úti frýs. Á svona merkikerti sem getur ekki stjórnað minnstu stofnun ríkisins að sitja í Hæstarétti, fjalla þar um og dæma í stærstu málum þjóðarinnar?
Hér er bréf mitt til Ögmundar:
Heill og sæll ÖgmundurSTEFNA
Lýðræðishreyfingin kt. 450698-3429, til heimilis að Vogaseli 1, 109 Reykjavík.
Gjörir kunnugt: Að félagið þurfi að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Íslenska ríkinu kt. 550169-2829, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, vegna stofnana sem þar heyra undir, Póst og fjarskiptastofnunar, Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og Útvarpsréttarnefndar.Dómkröfur:
Fyrir héraðsdóminum eru eftirfarandi dómkröfur gerðar af hálfu stefnanda:
1. Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2010, Lýðræðishreyfingin/Lýðvarpið gegn Póst- og fjarskiptastofnun verði ógiltur sem og ákvörðum PFS nr. 13/2010 í sama máli.
2. Viðurkennt verði fyrir dómnum að við meðferð PFS (Póst- og fjarskiptastofnunar), Úrskurðarnefndar í fjarskipta og póstmálum og Útvarpsréttarnefndar á máli því sem úrskurður skv. 1.tl. fjallar um, hafi verið brotið gegn réttindum og hagsmunum Lýðræðishreyfingarinnar/Lýðvarpsins og að héraðsdómurinn felli úrskurð um efnisatriði deilunnar, þ.e. hvort heimilt hafi verið af hálfu PFS að svipta Lýðræðishreyfinguna/Lýðvarpið, tíðninni 100,5 Mhz til útsendingar frá Bláfjöllum á þann hátt og með þeim forsendum sem gert var.
3. Gerð er krafa um að dómurinn fyrirskipi PFS að endurúthluta strax Lýðræðishreyfingunni/Lýðvarpinu tíðninni FM100.5 svo og tíðninni sem úthlutað var fyrir uplink samband úr hljóðveri og sem uplink sendir Lýðvarpsins hefur verið stilltur á þannig að útsendingar geti aftur hafist með sama hætti og lagt var upp með. PFS verði skylt að tryggja að aðrir aðilar sendi ekki út á þessum tíðnum.
4. Krafist er 75 milljóna króna skaðabóta vegna rekstrarstöðvunar og fjárhagslegs tjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna ákvarðana PFS og úrskurðarnefndarinnar sem getið er um í tl. 1 og 2. Nánar tiltekið er um að ræða skuldbindingar vegna húsaleigu, tækjaleigu og launakostnaðar. Einnig annar rekstrarkostnaður, tapaðar tekjur o.fl. sem nánar verður tilgreint fyrir dómi. Einnig er krafist vaxta af skaðabótum.
Til vara er í þessum lið krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu ríkissjóðs vegna fjárhagstjóns sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna athafna ofangreindra stofnana.
5. Krafist er greiðslu alls málskostnaðar úr hendi stefnda auk dráttarvaxta vegna reksturs málsins. Þar á meðal málskostnaðar vegna reksturs málsins á fyrri stigum fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála, umboðsmanns alþingis og Póst og fjarskiptastofnunar.
Málflutningsumboð:
Forsvarsmaður stefnanda, Jón Pétur Líndal, kt. 060364-4949, sem er formaður Lýðræðishreyfingarinnar og framkvæmdastjóri Lýðvarpsins, rekur mál þetta sjálfur fyrir stefnanda. Réttur er áskilinn til að veita öðrum forsvarsmanni stefnanda eða lögmanni málflutningsumboð til reksturs málsins að hluta eða öllu leiti á síðari stigum.
Forsvarsmaður stefnanda er ekki löglærður og er því vísað í skyldur dómara samkvæmt 101. gr. laga nr 91/1991 um að leiðbeina aðila sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur.
Málavextir:
Lögvarðir hagsmunir:
Stefnandi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunar PFS nr. 13/2010 og úrskurðar úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 2/2010.
Stefnandi Lýðræðishreyfingin er handhafi leyfis til útvarps frá Útvarpsréttarnefnd dags. 17. febrúar 2009 með gildistíma 16. janúar 2009 - 15. janúar 2012, sem þessi stefna snýst m.a. um að fá staðfest að sé í gildi ásamt tíðnileyfi sem skv. lögum ber að fylgja leyfi til útvarps. Stefnandi rekur útvarpsstöðina Lýðvarpið og er ofangreint útvarpsleyfi gefið út vegna þeirrar útvarpsstöðvar eins og það ber greinilega með sér.
Allar ákvarðanir um útgáfu leyfa til útvarps og tíðnileyfi vegna útvarpsútsendinga og breytingar á þessum leyfum hafa bein og veruleg fjárhagsleg og fagleg áhrif á rekstur stefnanda og stöðu hans á markaði fyrir útvarpsrekstur. Þær breytingar sem PFS og úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála gerðu á rekstri Lýðvarpsins með því að staðfesta sviptingu á útvarpstíðni þess hafa stöðvað rekstur útvarpsstöðvarinnar og valdið henni verulegu fjárhagstjóni. Þessi afskipti PFS og úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála eru því þess eðlis að stefnandi hefur mikla hagsmuni af að fá skorið úr um lögmæti þeirra.Málsatvik:
Ein af stofnunum Íslenska ríkisins, Póst og fjarskiptastofnun (hér eftir nefnd PFS í þessu máli) úthlutaði Lýðræðishreyfingunni Leyfi til útvarps með leyfisbréfi, dags. 16. janúar 2009 með gildistíma til eins árs að undanfarinni ákvörðun útvarpsréttarnefndar um að veita Lýðræðishreyfingunni/Lýðvarpinu útvarpsleyfi eins og vera ber. Nokkrum dögum síðar var beðið um leiðréttingu á útvarpsleyfinu vegna útsendingarsvæðis og um leið óskað eftir breyttum gildistíma á því til útvarpsréttarnefndar, þannig að leyfistíminn var lengdur í 3 ár og útsendingarsvæðið varð landið allt. Þetta var samþykkt í útvarpsréttarnefnd sem veitti útvarpsleyfi til 3 ára með gildistímann 16. janúar 2009 - 15. janúar 2012.. Þegar endanlegt leyfi var sótt og móttekið hjá Útvarpsréttarnefnd var sérstaklega spurt um hvort við þyrftum að hafa frekari samskipti við PFS vegna breytinga á leyfinu. Því var svarað til að skv. venju myndi Útvarpsréttarnefnd senda PFS breytt leyfi og þyrftum við ekki að sækja sérstaklega um framlengingu á tíðnileyfum hjá PFS. Stefnendur gerðu þar með ráð fyrir að vera með útvarpsleyfi og tíðnileyfi til 3 ára eins og lög og skriflegt tíðnileyfi PFS gera ráð fyrir.
Að liðnu rúmlega einu ári frá leyfisveitingu kemur í ljós að PFS hefur úthlutað annarri útvarpsstöð tíðni þeirri sem fylgdi okkar leyfi til útvarpsrekstrar. Við athugun kom fljótt í ljós að PFS taldi sig ekki vita að við værum með 3 ára útvarpsleyfi og því óhætt að úthluta senditíðni okkar til annars aðila. Síðan hefur staðið í stappi við stofnunina að fá greitt úr þessu máli. Við höfum krafist þess að fá tíðni okkar aftur og að halda henni í samræmi við gildistíma útvarpsleyfis okkar. PFS hefur ekki komið til móts við okkur í þessu, stofnunin virðist í ákvörðun sinni í málinu nr. 13/2010 telja það vera okkar sök að þeir vissu ekki að við værum með 3 ára útvarpsleyfi.Vísað er til málsskjala sem fylgja hér með til nánari útskýringa. Þar er málið rakið ítarlega.
Nú er svo komið að við höfum reynt til þrautar að fá leiðréttingu málsins hjá PFS án árangurs, einnig hefur málið farið fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sem hefur tekið afstöðu með PFS í þessu máli. Við höfum einnig kvartað til Umboðsmanns Alþingis vegna málsins sem nú hefur það til meðferðar.Það sem rekur okkur nú til að fara með málið fyrir héraðsdóm eru eftirfarandi atriði.
1. Við teljum það óviðunandi og ólöglega stjórnsýslu að opinberar stofnanir séu í störfum sínum uppvísar að misræmi í gagnabönkum sem miklu varða fyrir þá sem eiga undir þessar stofnanir að sækja og að slíkt misræmi sé notað viðkomandi aðilum í óhag eins og í þessu máli.
2. Við teljum að úrskurðarnefndin hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni þegar hún úrskurðaði um málið, heldur einungis dregið taum stofnunarinnar (PFS) sem við teljum hafa brotið á okkur.
3. Vinnubrögð PFS og úrskurðarnefndarinnar hafa stöðvað algjörlega útvarpsrekstur Lýðvarpsins og valdið félaginu verulegu fjárhagstjóni.
4. Vinnubrögð PFS í þessu tiltekna máli eru ekki í samræmi við venjur og verklag stofnunarinnar eins og fram kemur í málsskjölum. Við teljum það óásættanlegt og brot á bæði stjórnsýslulögum og fjarskiptalögum að um útvarps- og tíðnileyfi Lýðvarpsins séu aðrar vinnureglur og verklag en gagnvart öðrum sambærilegum aðilum.
5. Í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 2/2010 kemur fram að viljum við ekki una úrskurðinum verði að bera hann undir dómstóla innan 6 mánaða frá því okkur berst vitneskja um hann, sbr. 3. mgr. 13.gr. laga nr. 69/2008. Nú er sá tími að renna upp. Við hefðum kosið að álit Umboðsmanns Alþingis lægi fyrir áður en við tökum ákvörðun um að skjóta málinu til dómstóla, en þar sem lög hamla því að við bíðum lengur er nú óhjákvæmilegt að höfða mál í úrslitatilraun okkar til að ná fram rétti okkar í þessu máli.
Málsástæður og lagarök:
Af hálfu stefnenda er þess krafist að úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála í máli nr.
2/2010 verði ógiltur sem og ákvörðum PFS í sama máli. Í úrskurði nefndarinnar hefur hún kosiðað sneiða alfarið hjá því að fjalla um það mikilvæga atriði, sem að okkar mati er aðalatriði málsins, að áður en útvarpsleyfi útvarpsréttarnefndar vegna Lýðvarpsins var gefið út, var því breytt í 3 ára leyfi.
Það var eina leyfið sem hefur verið gefið út með lögmætum hætti og móttekið af hálfu Lýðvarpsins á fullnægjandi hátt.
Í leyfisbréfi PFS dags. 14. janúar 2009 til Lýðvarpsins segir orðrétt í c lið: Heimild þessi er með fyrirvara um útvarpsleyfi frá Útvarpsréttarnefnd og mun gildistími heimildarinnar miðast við gildistíma útvarpsleyfis sbr. þó lið d) hér að neðan og g. lið 10. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 sem felur í sér að heimild til notkunar tíðni megi afturkalla ef mikilvægar forsendur fyrir heimildinni breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegra samþykkta sem Ísland er aðili að
Skv. þessari tilvísun í leyfisbréf PFS er það ótvírætt að tíðnileyfi gildir jafn lengi og útvarpsleyfi. Með fullfrágengið 3. ára útvarpsleyfi gat Lýðvarpið því ekki ályktað annað en að það hefði líka 3. ára tíðnileyfi.
Varðandi samskipti Útvarpsréttarnefndar og PFS í þessu máli þá vísum við til 6. gr. Útvarpslaga nr. 53/2000. Þar segir m.a. í b. lið Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir til þeirra sem fengið hafa leyfi til útvarps ..o.s.frv.
Í h. lið sömu greinar Útvarpslaga segir m.a. ...Útvarpsréttarnefnd fylgist með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt og hefur að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laga þessara,....Við teljum það í ljósi þessarar lagagreinar alfarið vera skyldu og ábyrgð Útvarpsréttarnefndar að gæta þess að PFS hafi ávallt réttar upplýsingar um útvarpsleyfi. Það geti því alls ekki verið á ábyrgð Lýðvarpsins að passa að réttar upplýsingar berist milli stofnana um gild útvarpsleyfi eins og haldið hefur verið fram á fyrri stigum málsins. Þá teljum við Útvarpsréttarnefnd hafa vikið sér undan skyldum sínum skv. þessari grein með þvi að frábiðja sér frekari afskipti af málinu eins og gert er í bréfi nefndarinnar dags. 14. apríl 2009.
Einnig bendum við varðandi þennan þátt málsins á III kafla Stjórnsýslulaga Nr. 30/1993 en þar segir í 10. gr. um Rannsóknarreglu: Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Teljum við að Útvarpsréttarnefnd hafi heldur ekki uppfyllt skyldur sínar skv. þessum lögum þegar nefndin ákvað að koma ekki frekar að málinu.
Í 2.gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála nr. 36/2009 segir m.a. að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé .. að leysa með skjótum, vönduðum og óhlutdrægum hætti úr kærum sem nefndinni berast vegna ákvarðana Póst og fjarskiptastofnunar. Við teljum vinnubrögð úrskurðarnefndarinnar alls ekki vönduð, og því síður vinnubrögð PFS í málinu. Við vísum til þess sem allt má sjá af meðfylgjandi skjölum að:
a) Upphaflegt útvarpsleyfi, dags. 16.janúar 2009, er óundirritað af forsvarsmanni Lýðvarpsins eins og þó er beðið um að sé gert í bréfi sem fylgdi með leyfinu frá Útvarpsréttarnefnd og form leyfisins gerir ráð fyrir að gert sé. Leyfisbréfið tiltekur einnig að það skuli gert í tveim eintökum og haldi Útvarpsréttarnefnd öðru eintakinu en Lýðræðishreyfingin hinu. Þetta leyfi fylgir hér með í tvíriti í málskjölum, bæði eintök leyfisins, óundirrituð af Lýðræðishreyfingunni til sönnunar á því að það var aldrei fullfrágengið á viðeigandi hátt. Það mátti því öllum sem skoða þetta leyfi og fylgigögn þess, PFS eða úrskurðarnefndinni t.d., vera ljóst að það væri ekki fullfrágengið og endanlegt útvarpsleyfi. Þá vekjum við athygli á því að í leyfinu segir m.a. Leyfi er veitt til reksturs hljóðvarpsstöðvar, þar sem útvarpað verður um höfuðborgarsvæðið (SV-landið). Skv. skilgreiningu á vefsíðu Útvarpsréttarnefndar þar sem veittar eru upplýsingar til umsækjenda um útvarpsleyfi sem fylgir með útprentuð í málsskjölum þá er með suðvesturlandi átt við svæðið frá suðurnesjum til Akraness. Það vekur furðu að PFS skyldi þvert á þetta ákvæði leyfisins leyfa okkur að setja upp sendi og útvarpa til mun stærra svæðis en leyfið sem þeir vísa til, kveður á um. Það sýnir einungis að stofnunin hefur annaðhvort framið vísvitandi eða af gáleysi lögbrot þegar þeir leyfðu Lýðvarpinu að staðsetja sendibúnað sinn í Bláfjöllum og útvarpa þannig til mun stærra svæðis en upphaflegt útvarpsleyfi gerði ráð fyrir, eða það sem trúlegra er að þeir hafa á síðari stigum málsins ákveðið að nota þetta upphaflega leyfi til að breiða yfir eigin mistök við endurúthlutun tíðninnar án þess þó að gera sér grein fyrir því að leyfin sem deilt er um eru ekki bara frábrugðin varðandi tímalengd, heldur líka útsendingarsvæði.
Varla er hægt að álykta annað en að PFS hefði ekki leyft staðsetningu útvarpssendisupp á Bláfjöllum nema vita að fyrir lægi útvarpsleyfi sem heimilaði útsendingu til mun stærra
svæðis en Höfuðborgarsvæðisins. Úrskurðarnefndin fjallar ekkert um þetta atriði í úrskurði sínum
og verður því að álykta sem svo að hún hafi ekki kannað málið gaumgæfilega áður en hún kvað
upp úrskurð sinn, nefndin hafi ekki sinnt hlutverki sínu með nægilega vönduðum hætti. Eins og fram kemur í málsskjölum þá höfum við áður farið yfir það hvernig atvikaðist með útgáfu útvarpsleyfis okkar.
b) Þegar Lýðvarpið hafði fengið í hendur og kvittað á réttan hátt fyrir 3 ára útvarpsleyfi sem nær til landsins alls, eftir beiðni til Útvarpsréttarnefndar um leiðréttingu á útsendingarsvæði og tímalengd leyfisins, þá taldi Lýðvarpið að um útsendingartíðnina gilti það sem fram kom við upphaflega úthlutun hennar í bréfi PFS dags. 14. janúar 2009. Þar segir m.a. í c) lið. Heimild þessi er með fyrirvara um útvarpsleyfi frá Útvarpsréttarnefnd og mun gildistími heimildarinnar miðast við gildistíma útvarpsleyfis sbr. þó....
Þetta ákvæði ber það greinlega með sér að PFS muni láta útsendingartíðni fylgja gildistímaútvarpsleyfis. Einnig kemur það skýrt fram að heimildin sé með fyrirvara um útvarpsleyfi frá Útvarpsréttarnefnd. Verður að álíta að PFS hafi við framvindu málsins gætt þess í samræmi við eigin skilyrði fyrir notkun tíðninnar 100,5MHz að staðsetning búnaðar og útsendingarsvæði væri í samræmi við útvarpsleyfi og að það lægi fyrir. Í þessu bréfi PFS er einnig fjallað um staðsetningu útvarpssendis Lýðvarpsins. Kóngsgil í Bláfjöllum er tilgreint sem útsendingarstaður. Hefði PFS farið eftir eigin fyrirmælum til Lýðvarpsins hefði stofnunin aldrei heimilað Lýðvarpinu að setja upp útsendingarmastur og loftnet efst í Kóngsgili nema hafa undir höndum útvarpsleyfi sem heimilaði Lýðvarpinu að senda út til stærra svæðis en höfuðborgarsvæðisins. Frá Kóngsgili næst útsending ágætlega til Vestmannaeyja, meginhluta suðurlands allt að Vík, um mest allt Reykjanes og Faxaflóasvæðið. Einnig um Vesturland að nokkru og Snæfellsnes sunnanvert og allt til Flateyjar á Breiðafirði. Þetta er augljóslega miklu stærra svæði en Höfuðborgarsvæðið skv. skilgreiningu Útvarpsréttarnefndar og augljóst að PFS hefði aldrei leyft þennan útsendingarstað nema hafa undir höndum útvarpsleyfi sem heimilaði Lýðvarpinu að senda út á þetta stóra svæði, eða a.m.k. að PFS hafi haft vitneskju um slíkt leyfi. Það er því ekki trúverðugt þegar stofnunin heldur fast við að hafa ekki haft hugmynd um að útvarpsleyfi Lýðvarpsins hafi ekki verið breytt frá upphaflegri útgáfu þess. En jafnvel þó að svo hefði verið þá getur það ekki verið hlutverk Lýðvarpsins að passa upp á að stofnunin hafi undir höndum réttar upplýsingar um afgreiðslur Útvarpsréttarnefndar. Í bréfi PFS dags. 14. janúar 2009, þar sem fjallað er um að tíðnileyfi Lýðvarpsins fylgi gildistíma útvarpsleyfis, er ekkert tekið fram um að slík framlenging séð háð því að Lýðvarpið láti PFS vita af breytingum á gildistíma útvarpsleyfisins. Því ályktuðum við sem svo að okkur bæri ekki skylda til að upplýsa PFS sérstaklega um slíkar breytingar. Við gerðum þvert á móti ráð fyrir að PFS fengi allar nauðsynlegar upplýsingar um gild útvarpsleyfi frá Útvarpsréttarnefnd. Slíkt hlýtur enda að vera eðlilegri stjórnsýsla en að hver leyfishafi sé á sinn hátt að koma viðeigandi gögnum til PFS.
Um það leiti sem í ljós kom að PFS hafði úthlutað tíðni Lýðvarpsins til annars aðila fékk Lýðvarpið tölvupóst og bréf frá Menntamálaráðuneytinu vegna tilnefningar í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Í lista dags. 6. apríl 2010 sem fylgdi með bréfinu kom fram að Lýðvarpið væri með 3 ára útvarpsleyfi með gildistíma 16. janúar 2009 - 15. janúar 2012. Þar er hvergi að sjá ummerki um hið eins árs útvarpsleyfi sem PFS taldi okkur hafa fengið. Það var því á þeim tíma ekki bara skilningur Lýðræðishreyfingarinnar/Lýðvarpsins að við hefðum 3 ára útvarpsleyfi, heldur var það einnig skilningur Menntamálaráðuneytisins, sem Útvarpsréttarnefnd heyrir undir sem og Póst- og fjarskiptastofnun í þessum málum skv. útvarpslögum nr. 53/2000.
c) Þegar PFS kannar hvort Lýðvarpið sé í rekstri og að nota útsendingartíðni sína. Þá er það
einungis gert með því að kanna hvort útsending náist frá stöðinni á einum ákveðnum degi og tímapunkti. Slíkt er alsendis ófullnægjandi athugun að teknu tilliti til þess svigrúms sem Lýðvarpið hefur til útsendingar skv. útgefnu tíðnileyfi frá PFS. Í bréfi Póst og fjarskiptastofnunar 14. janúar 2009 (tíðnileyfinu) segir í d) lið: Notkunin skal vera í fullu samræmi við leyfisbréf þetta og útvarpsleyfi varðandi útsenda dagskrá og staðsetningu sendis og sent skal út með þeim sendistyrk sem tilgreindur er í leyfisbréfinu. Sent skal út að staðaldri. Falli útsendingar niður skulu þær hafnar að nýju innan 3 mánaða. Útsendingar mega ekki liggja niðri lengur en 3 mánuði á hverju 12 mánaða tímabili. Ef skilyrðum þessarar málsgreinar er ekki fullnægt eða falli útvarpsleyfi úr gildi fellur tíðniheimild þessi úr gildi. Núgildandi útvarpsleyfi rennur út 15.01.2010 og tíðniheimild þessi samhliða því sbr. c)Af þessu er ljóst að það er ekki skilyrði að útsendingar séu í gangi alla daga, raunar er ekkert
athugavert við að þær falli niður um langan tíma heldur er það í fullu samræmi við afgreiðslu PFS á umsókn Lýðvarpsins um útsendingartíðni. Einnig er skv. 6. gr. Útvarpslaga nr. 53/2000 gert ráð fyrir því í g. lið greinarinnar að hægt sé að hætta útvarpsrekstri í allt að fjóra mánuði samfellt án þess að útvarpsleyfi falli niður. Þar að auki er ekki skylt að senda út allan sólarhringinn. Í 2. mgr. útvarpsleyfisins segir Útsendingartími er heimilaður allt að 24 klukkustundir á sólarhring. Það er því greinilegt af orðanna hljóðan að Lýðvarpinu var heimilt að senda út í skamman tíma á dag kysi það að gera svo.
Því eru það óeðlileg vinnubrögð PFS að láta duga, þegar kannað er hvort Lýðvarpið sé hætt rekstri, að kanna hvort útsending sé í gangi í takmarkaðan tíma á einum tilteknum degi. Þessi vinnubrögð uppfylla ekki kröfu um rannsóknaskyldu stjórnvalds skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá er það sérstaklega athugavert að okkar mati að PFS var vel kunnugt um að Lýðvarpið átti í ákveðnum vandræðum með útsendingu vegna þess að PFS hafði fyrirskipað Lýðvarpinu að minnka sendiafl tímabundið og færa útsendingarbúnað sinn á stað þar sem útsendingin ylli ekki truflunum, án þess þó að PFS hafi verið búin að ákveða hvert við mættum færa útsendingarbúnaðinn. M.a. hafði PFS fyrirskipað okkur að slökkva tímabundið á útsendingu í Bláfjöllum væri þess óskað vegna truflana fyrir starfsmenn og gesti skíðasvæðisins. Vegna þessara sérstöku fyrirmæla PFS til Lýðvarpsins um stöðvun á útsendingu þá er það sérstaklega óábyrg og óvönduð stjórnsýsla að kanna á svo takmarkaðan hátt sem gert var hvort Lýðvarpið hyggist endurnýja tíðniheimild sína eða ekki.
Það kemur einnig fram að venja er hjá PFS að hafa samband við útvarpsstöðvar áður en
tíðniheimildir renna út til að kanna hvort stöðvarnar hyggist endurnýja þær. Raunar segir orðrétt í tölvupósti PFS, dags. 15. júní 2010 um þetta atriði Gjalddagi árgjalda tíðniheimilda fyrir útvarpssenda er 1. mars ár hvert. Þá er athugað með stöðu útvarpsleyfa og ef útvarpsleyfi er að renna út þá eru menn minntir á að sækja um endurnýjun til Útvarpsréttarnefndar í tíma. Þetta hefur í langflestum tilfellum dugað en í einstökum tilfellum hefur þurft að ítreka. Þá er og athugað hvort að útsendingar séu í gangi. Þetta verklag var ekki viðhaft í tilfelli Lýðvarpsins. Það er ekki í samræmi við góða stjórnsýslu að mismuna fyrirtækjum á slíkan hátt sem þarna var gert, þegar PFS ákvað að kanna ekki á sama hátt afstöðu Lýðvarpsins til framhalds á útsendingum eins og gert er hjá öðrum útvarpsstöðvum eða að minna okkur á að sækja um endurnýjun útvarpsleyfis úr því PFS taldi sig ekki vita betur en það væri að renna út. Að okkar mati er þarna um að ræða brot á jafnræðisreglu Stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 11. gr. og einnig 7. gr. Leiðbeiningarskyldu, og 10. gr. Rannsóknarreglu. Líklegt er einnig að ef PFS hefði viðhaft sama verklag og þeir segja að almennt gildi þegar útvarpsleyfi eru að renna út, og vísað er til hér að ofan, og haft samband við Lýðvarpið eins og þeir gera þegar aðrar útvarpsstöðvar eiga í hlut, að þá hefðum við upplýst PFS um að við hefðum 3 ára útvarpsleyfi og PFS hefði þá væntalega leiðrétt skýrslur sínar. Þannig hefði PFS getað komist hjá þessu klúðri mest öllu með því einu að halda sig við almennar vinnureglur stofnunarinnar.
d) Við endurúthlutun á útsendingartíðni Lýðvarpsins til nýs aðila 2010 var viðkomandi aðila leyft að senda út frá stað sem Lýðvarpinu hafði verið fyrirskipað að flytja sig frá. Þá fyrirskipun PFS til okkar má sjá í tölvupósti starfsmanns PFS til Lýðvarpsins dags. 25. mars 2009 þar sem sagt er að nauðsynlegt sé að lækka strax sendiafl útvarpssendis og fækka loftnetum og í framhaldinu að finna nýjan stað fyrir sendinn. Þetta var ákvörðun PFS og það vekur furðu okkar og er athugavert að stofnunin skuli mismuna aðilum með þeim hætti að leyfa öðrum aðila við meinta ólögmæta endurúthlutun tíðninnar að senda út frá nákvæmlega sama stað og okkur var fyrirskipað að færa okkur frá. Nýr aðili (Kaninn - Concert ehf) tók þessu líka svo bókstaflega að hann fór í óleyfi í mastur okkar í Bláfjöllum og hóf útsendingu sína frá því eins og ítarlega er rakið í lögreglukærum sem fylgja hér með. Að okkar mati er þarna um að ræða af hálfu PFS brot á jafnræðisreglu Stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 11. gr. og meðalhófsreglu skv. 12 gr. sömu laga. Vegna þessa þykir okkur eðlilegt að skaðabótakrafa okkar nái allt aftur til þess tíma er við fengum fyrirmæli frá PFS um að færa útsendingarbúnað okkar í samráði við PFS og að þurfa að slökkva tímabundið á útsendingu. Ljóst er að úr því PFS leyfði öðrum aðila var leyft að gera það sem þeir bönnuðu okkar að bannið var ekki á faglegum rökum reist og að það hefur valdið Lýðvarpinu óþarfa tjóni.
Af öllu þessu ofangreindu teljum við að PFS hafi í algjöru heimildarleysi og lögleysu gróflega brotið á Lýðvarpinu með því að úthluta útsendingartíðni þess til annars aðila snemma á árinu 2010. Við teljum að PFS hafi borið að leiðrétta brot sitt með því að draga til baka þá úthlutun eins og við fórum fram á við PFS, enda var það hægur vandi á þeim tíma, því nýr aðili hafði þá einungis hafið útsendingu á tíðninni í tilraunaskyni og sendi einnig áfram út á sinni fyrri tíðni. Við teljum að bæði PFS og úrskurðarnefndin hafi við málsmeðferð sína litið fram hjá mikilvægum gögnum og eðlilegum stjórnsýsluháttum svo og almennum reglum Stjórnsýslulaga nr. 30/1993 meðal annars reglum um 7. gr. Leiðbeiningarskyldu, 10. gr. Rannsóknarreglu, 11. gr. Jafnræðisreglu og 12. gr. Meðalhófsreglu og þannig vanrækt skyldur sínar. Úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála nr. 2/2010 beri að ógilda sem og ákvörðun PFS nr. 13/2010. Þá teljum við að Útvarpsréttarnefnd hafi vikið sér hjá skyldum sínum um eftirlit með framkvæmd Útvarpslaga.
Þar sem margítrekuð brot þessara aðila gegn hagsmunum Lýðvarpsins hafa valdið því að það er án útsendingartíðni, þrátt fyrir að hafa enn gilt útvarpsleyfi, og getur því ekki sent út dagskrá né aflað tekna fyrir föstum útgjöldum né launum, eða almennt starfað á þeim markað sem það fékk leyfi til, er það óhjákvæmilegt að krefjast skaðabóta vegna þess fjárhagstjóns sem þessi brot hafa valdið Lýðvarpinu.
Fram kemur í tölvupósti PFS dags. 13. apríl 2010 að starfsmaður PFS hafði samband við forstöðumann Skíðasvæðisins í Bláfjöllum 2. febrúar 2010 vegna yfirvofandi öryggishættu sem komin var upp frá neistaflugi úr loftnetsmastri Lýðvarpsins á svæðinu og slökktu starfsmenn skíðasvæðisins í framhaldinu á útvarpssendi Lýðvarpsins. Forsvarsmönnum Lýðræðishreyfingarinnar/Lýðvarpsins barst hinsvegar engin tilkynning um þetta og töldu að slökkt hefði verið á útsendingunni tímabundið vegna þess að hún ylli truflunum á skíðasvæðinu, enda starfsemi þar þá hafin og PFS hafði áður varað við að slökkva gæti þurft á útsendingu tímabundið á starfstíma skíðasvæðisins þar til nýr og hentugri staður fyrir útsendingarbúnaðinn væri fundinn. Lýðvarpið hélt því áfram í góðri trú að senda út frá hljóðveri í Breiðholti en dagskrá Lýðvarpsins var send út með svokölluðum Link útvarpssendi frá Vogaseli uppí móttökubúnað í Bláfjöllum sem tengdist aðal sendinum og loftnetsmastrinu sem dreifði síðan útsendingunni um landið. Þessi link búnaður var einnig rekinn með tíðnileyfi frá PFS.
Samkvæmt XVI kafla 73.gr. laga Nr. 81/2003 um fjarskipti bar Póst og fjarskiptastofnun að tilkynna Lýðræðishreyfingunni um atvikið en þar segir: Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef sannanir liggja fyrir um brot á skilmálum almennrar heimildar eða skilyrðum sem tengjast réttindum eða sérstökum kvöðum sem leiðir til yfirvofandi hættu fyrir öryggi og heilsu almennings eða getur skapað alvarleg fjárhagsleg eða rekstrarleg vandamál fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki eða notendur fjarskiptaneta eða þjónustu, tekið bráðabirgðaákvarðanir til að bæta úr ástandinu áður en endanleg ákvörðun er tekin. Fjarskiptafyrirtækinu sem í hlut á skal að lokinni bráðabirgðaákvörðun veitt tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og leggja til úrbætur. Þegar við á getur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest bráðabirgðaákvörðun sína. Með því að láta hjá líða að tilkynna okkur um þetta teljum við PFS hafa framið enn eitt brotið og svo kórónað þetta ferli með því að nota sér það að hafa látið slökkva á útsendingunni hjá okkur og ranglega álykta sem svo að Lýðvarpið væri hætt starfsemi, eins og fram kemur í tölvupóstum PFS dags. 15. júní 2010 og 13. apríl 2010.Skaðabótaskylda:
Stefnendur byggja skaðabótakröfu sína á því að með óvandaðri og ólögmætri stjórnsýslu og margvíslegum lögbrotum eins og fyrr er rakið og rökstutt í stefnunni hafi stofnanir Íslenska ríkisins valdið stefnendum verulegu fjárhagslegu tjóni þar sem athafnir stofnananna hafa leitt til þess að rekstur Lýðvarpsins hefur alveg stöðvast. Félaginu er vegna þessara athafna ókleyft að senda út dagskrá, afla tekna, standa við skuldbindingar, halda starfsfólki, greiða laun og önnur útgjöld og með nokkrum hætti að stunda starfsemi þá sem félagið hefur þó sérstakt útvarpsleyfi til að gera. Allt er þetta vegna þess að athafnir stofnana íslenska ríkisins hafa leitt til þess að um skeið, hamla verulega útsendingum Lýðvarpsins vegna takmarkana PFS á áður heimiluðum útsendingarstyrk, og síðar með því að svifta Lýðvarpið með ólögmætum hætti útsendingartíðni sinni og stöðvar þannig algjörlega rekstur þess. Meðal annars er bent á III kafla Stjórnsýslulaga Nr. 30/1993 en þar segir í 10. gr. um Rannsóknarreglu: Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Einnig er bent á Jafnræðisreglu í 11. gr. Stjórnsýslulaga: Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991.
Krafan um dráttarvexti og vexti af skaðabótum styðst við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Áskilnaður:
Stefnendum er áskilinn réttur til að leggja fram frekari gögn í málinu en lögð verða fram við þingfestingu málsins svo og til breytinga á kröfugerð, málsástæðum, lagarökum og skýringum á síðari stigum málsins.
Sönnunargögn:
Við þingfestingu málsins munu stefnendur leggja fram eftirfarandi skjöl:
1. Stefnu þessa.
2. Skrá yfir framlögð skjöl og skjölin sjálf.
Gerður er áskilnaður af hálfu stefnenda um framlagningu frekari skjala eftir þingfestingu málsins, auk þess að leiða vitni og bera fram nýjar málsástæður allt eftir því sem tilefni gefst til.
Fyrirkall:
Fyrir því stefnist hér með Ríkislögmanni, Einari Karli Hallvarðssyni, Hverfisgötu 4-6 Reykjavík, fh. Íslenska ríkisins og stofnana sem þar heyra undir í þessu máli, Póst og fjarskiptastofnunar, Úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og Útvarpsréttarnefndar, til þess að mæta þegar mál þetta verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur sem háð verður í dómsal 102 í Dómhúsinu við Lækjartorg, þriðjudaginn 15. mars 2011, kl. 10.00, til þess þar og þá, að sjá sköl og skilríki fram lögð, á sókn sakar og dómkröfur hlýða, til sakar að svara og dóm að þola í framangreinda átt, að öðrum kosti mega stefndu búast við að útivistardómur gangi í samræmi við kröfur stefnenda.
Stefnufrestur ákveðst þrír sólarhringar.
Reykjavík 10. mars 2011.
Virðingarfyllst,
F.h. Lýðræðishreyfingarinnar / Lýðvarpsins.
__________________________________
Jón P. Líndal.
Reykjavík, __________________ 2011
Mér nægjanlega birt fyrir hönd stefnda sem hefur falið mér að sækja þing við þingfestingu máls þessa. Fallið er frá stefnufresti:
_____________________________________
f.h. Íslenska ríkisins / Ríkislögmaður
Skrá yfir framlögð skjöl:
- Bréf PFS dags. 14. janúar 2009, heimild til notkunar á útvarpstíðni. (2008120026 - 5.51.050)
- Bréf Útvarpsréttarnefndar dags. 16. janúar 2009 varðandi útvarpsleyfi.
- Leyfi til Útvarps, dags. 16. janúar 2009, frumrit í tvíriti, ófrágengið.
- Samningur dags. 29. janúar 2009, Hýsing útvarpssendis í Bláfjöllum.
- Bréf Útvarpsréttarnefndar dags. 17. febrúar 2009 varðandi útvarpsleyfi.
- Leyfi til Útvarps, dags. 17. febrúar 2009, frumrit í einriti, frágengið.
- Tölvupóstur frá PFS dags. 25. mars 2009 til Gunnars (Lýðvarpið), varðandi færslu á mastri o.fl.
- Bréf til útvarpsstöðva, dags 6. apríl 2010, frá menntamálaráðuneytinu, varðandi tilnefningu í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva ásamt lista yfir útvarpsstöðvar með langtíma útvarpsleyfi.
- Tölvupóstur dags. 7 apríl 2010 frá menntamálaráðuneytinu varðandi tilnefningu í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva.
- Tölvupóstur dags. 9. apríl 2010 frá Lýðræðishreyfingunni til PFS varðandi óheimila útsendingu á tíðni Lýðvarpsins og aftengingu á tækjum stöðvarinnar.
- Tölvupóstur dags. 9. apríl 2010 frá Lýðræðishreyfingunni til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varðandi kæru á óleyfilegum afnotum af útsendingarbúnaði og útvarpstíðni, auk skemmda á búnaði.
- Bréf dags. 11. apríl 2010 til Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, Kæra: Nytjastuldur, skemmdarverk á útvarpsbúnaði og þjófnaður á loftnetum.
- Bréf dags. 11. apríl 2010 til útvarpsréttarnefndar frá Lýðvarpinu. Útvarpsleyfi okkar á tíðninni FM100,5
- Tölvupóstur dags. 12. apríl 2010 til PFS, Útvarpsréttarnefndar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Aftur farið í búnað Lýðvarpsins í óleyfi.
- Tölvupóstur dags. 13. apríl 2010 frá PFS til Lýðvarpsins.
- Tölvupóstur dags. 13. apríl 2010 frá Lýðræðishreyfingunni til Útvarpsréttarnefndar.
- Tölvupóstur dags. 13. apríl 2010 frá Þóri Steingrímssyni, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til Lýðvarpsins varðandi kærumál.
- Tölvupóstur dags. 14. apríl 2010 frá Útvarpsréttarnefnd til Lýðvarpsins (Ástþórs) varðandi upptökur af samskiptum.
- Bréf frá Útvarpsréttarnefnd dags. 14. apríl 2010 til Lýðvarpsins/Lýðræðishreyfingarinnar, svar við bréfi frá Lýðvarpinu dags. 11. apríl 2010.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu (Jón Pétur Líndal) til PFS (Þorleifur Jónsson) dags. 14. apríl 2010.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu/Lýðræðishreyfingunni (Ástþór Magnússon) til Útvarpsréttarnefndar dags. 16. apríl 2010.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu/Lýðræðishreyfingunni (Ástþór Magnússon) til Útvarpsréttarnefndar dags. 16. apríl 2010.
- Bréf frá Lúðvík Emil Kaaber dags. 19. apríl 2010 til PFS f.h. Lýðræðishreyfingarinnar.
- Bréf frá PFS dags. 21. apríl 2010 til Concert-KEF ehf. Málefni: Ágreiningur um tíðnina 100,5 Mhz í Bláfjöllum.
- Bréf frá PFS dags. 19. maí 2010 til Lúðvíks Emils Kaaber: Málefni: Ágreiningur um tíðnina 100,5 MHz í Bláfjöllum.
- PFS - Ákvörðun nr. 13/2010 um afnot af tíðninni 100,5 MHz til FM útvarpssendinga.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu/Lýðræðishreyfingunni (Ástþór Magnússon) til PFS dags 10. júní 2010, fyrirspurnir vegna ákvörðunar PFS nr. 13/2010.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu/Lýðræðishreyfingunni (Ástþór Magnússon) dags. 10. júní 2010 til Útvarpsréttarnefndar, spurningar um ferli og verklag.
- Tölvupóstur frá PFS (Friðrik Pétursson) dags. 15. júní 2010 til Lýðvarpsins. Svör við tölvupósti 10. júní 2010.
- Tölvupóstur frá Útvarpsréttarnefnd (Þóra Gunnarsdóttir) dags. 16. júní 2010 til Lýðvarpsins. Svar um bið á svari við tölvupósti dags. 10. júní 2010.
- Tölvupóstur frá Lýðvarpinu/Lýðræðishreyfingunni (Ástþór Magnússon) dags. 16.júní 2010 til Útvarpsréttarnefndar.
- Bréf til Úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála dags. 17. júní 2010. Kærð ákvörðun PFS nr. 13/2010.
- Bréf til Úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála dags. 19. ágúst 2010. Athugasemdir við greinargerð PFS.
- Úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 2/2010. Lýðræðishreyfingin/Lýðvarpið gegn Póst- og fjarskiptastofnun, dags. 14. september 2010.
- Kvörtun til Umboðsmanns Alþingis dags. 5. október 2010.
- Bréf frá Umboðsmanni Alþingis dags. 19. október 2010 til Lýðræðishreyfingarinnar um móttöku erindis.
- Bréf frá Umboðsmanni Alþingis dags. 5. nóvember 2010 til Lýðræðishreyfingarinnar um málsmeðferð.
- Bréf frá Umboðsmanni Alþingis dags. 11. nóvember 2010 til Lýðræðishreyfingarinnar um erindi sem Umboðsmaður hefur ritað úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála ásamt afriti af erindinu.
- Tölvupóstur frá Lýðræðishreyfingunni/Lýðvarpinu dags. 13. desember 2010 til PFS varðandi fund v. tíðni fyrir Lýðvarpið o.fl.
- Bréf til Umboðsmanns Alþingis dags. 13. desember 2010 frá Lýðræðishreyfingunni/Lýðvarpinu. Athugasemdir við bréf frá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála dags. 2. desember 2010.
- Útskrift af vefsíðu Útvarpsréttarnefndar - Upplýsingar til umsækjenda um útvarpsleyfi - skilgreining á suðvesturlandi er neðst á bls. 4 af 5.
Fjórir vilja dæma í Hæstarétti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Löggæsla, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.