15.2.2010 | 10:39
DV gjaldþrota
Kæra fjármálamisferli útgefanda DV, kennitöluflakk og viðskiptablekkingar
Ríkislögreglustjórinn Efnahagsbrotadeild
Skúlagata 21, 101 Reykjavík. Símbréf: 4442501
15. febrúar 2010
Í tengslum við undirbúning stefnu gegn útgefendum DV vegna meiðyrða kom í ljós að svokallaður eigandi blaðsins hæstaréttarlögmaðurinn Hreinn Loftsson, sem sterkur orðrómur er um að sé þarna sem leppur fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, heldur DV úti um pýramída byggðan upp af þremur gjaldþrota einkahlutafélögum að því virðist til að komast hjá því að taka ábyrgð á starfseminni.
Eftir stutta rannsókn á bakgrunni og fjárhag útgefanda DV er ljóst að rekstrinum er viðhaldið með grófum viðskiptablekkingum og kennitöluflakki.
Ársreikningar félaganna Birtings útgáfufélags ehf, Hjálmur ehf og Austursel ehf einkennast af blekkingum uppáskrifuðum af alþjóðlega endurskoðendafyrirtækinu Deloitte hf. Þegar reynt var að spyrjast fyrir um bókfærðar loftbólur hjá Einari Hafliða Einarssyni endurskoðanda hjá Deloitte kom svo mikið fát á manninn að hann skellti á símanum.
Nánast eina eign ofangreindra félaga er viðskiptavild kallað "útgáfuréttur" hjá Birtingur ehf uppá tæpar tvö hundruð milljónir króna. Slík viðskiptavild er auðvitað nánast einskis virði hjá félagi sem tapaði 150 milljónum króna við síðasta uppgjör og á þriðja tug milljóna árið áður. Þá eru bókfærðar útistandandi viðskiptaskuldir uppá 152 milljónir króna en stór hluti þess eru ónýtar kröfur. Endurskoðandinn veit fullvel að þessar rúmar 302 milljónir eru loftbólur og í engu samræmi við raunveruleg verðmæti. Hér er verið að viðhalda þeim ólögmætu bókhaldsbrellum sem viðgengust í Baugi en þaðan virðist félagið Hjálmur ehf, eiganda DV útgáfufélags og Birtings hafa færst yfir til Austursel ehf fyrirtækis Hreins Loftssonar árið 2008 með einhverskonar töfrabrögðum.
Undirritaður er upplýstur um að aðrir sem hafa á síðastliðnu ári fengið dæmdar miskabætur í meiðyrðamálum gegn útgefendum DV hafa síðan verið í vandræðum með að fá bæturnar greiddar. Þekktur lögfræðingur ritaði á síðasta ári grein í Fréttablaðið (22 ágúst 2009) þar sem hann kallaði aðstandendur DV "Síbrotamenn á sviði ærumeiðinga" en þá hafði blaðið fengið sjö dóma á 9 mánuðum.
DV virðist fyrir stuttu hafa verið gefið út af Útgáfufélag DV ehf og Dagblaðinu Vísir ehf og fært á milli þesara fyrirtækja með kennitöluflakki. Hreinn Loftsson og félagar virðast hafa sveiflað töfrasprotanum enn eina ferðina og síðast fært útgáfuna inní félagið Birtingur útgáfufélag sem nú stefnir í þrot eins og fyrirrennarar sínir. Undirritaður þarf því að stefna tveimur eða þremur útgáfufélögum vegna meiðyrða síðustu ára. Hinsvegar kemur upp það vandamál að DV útgáfufélag og Dagblaðið Vísir eru bæði gjaldþrota og nú afmáð úr hlutafélagaskrá. Þar sem huldumaðurinn sem stendur bakvið útgáfuna felur sig í dag á bakvið 3 eignalaus félög verður ekki séð hvernig hægt er að ná fram réttvísi gegn DV eða fá kröfur greiddar. Í síðasta ársreikingi núverandi útgáfufélags DV er ört hækkandi og einn stærsti kosnaðurliðurinn dráttarvextir sem sýnir vaxandi vanskil! Þá er ritstjóri blaðsins Reynir Traustason skráður á vanskilaskrá Lánstraust í dag og því ljóst að hann er ekki borgunarmaður fyrir sínum skuldum.
Ótækt er að líða það að þeir sem hafa fjárhagslegan ávinning af mannorðsmorðum með rógi og lygaþvælu einelti gegn einstökum persónum eins og undirrituðum komist undan réttvísi og ábyrgð með slíkri svikamyllu sem útgáfa DV er. Þessvegna er þess krafist að Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra stöðvi áframhaldandi rekstur þessa gjaldþrota sorprits og hlutist til um að opinber rannsókn fari fram á ólögmætu hátterni Hreins Loftssonar í tengslum við útgáfu-pýramídann. Full þörf er á að rannsaka hvernig útgáfa DV var færð með töfragjörningum úr Baugi sem nú er í gjaldþrotameðferð en ekki er hægt að lesa úr ársreikningum ofangreindra félaga að raunveruleg verðmæti hafi verið greidd til Baugs.
Einnig vakna upp spurningar um hvort Hreinn Loftsson geti áfram starfað sem hæstaréttarlögmaður eða fyrirtæki hans veitt opinberum aðilum lögfræðiþjónustu með slíkan slóða af gjaldþrotum og viðskiptablekkingum í farteskinu.
Virðingarfyllst,
Ástþór Magnússon
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Löggæsla, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:51 | Facebook
Athugasemdir
Að því gefnu Ástþór (sem ég leyfi mér nú eiginlega ekki að efast svo mikið um) er full ástæða til að fá botn í þetta mál (sem ég efast nú um að verði auðvelt)
Getum við ekki orðið sammála um að réttarfar á Íslandi hafi nú um skeið verið á dálítið undarlegri vegferð?
Mín sýn í dag á þetta eitt mikilvægasta samfélagsmálefni er sú að nú sé svo komið að í stað þess að réttlæti og það samfélagslega öryggi sem felst í aðhaldi gegn brotamönnum sé orðið að áherslu á rétt brotamanna til að komast undan ábyrgð á gerðum þeirra.
Réttarfarslegar ábyrgðarkröfur byrja á hnupli á lifrarpylsukepp í verslunum Bónusverslana,- og- enda því miður líka í verðmæti umræddrar matvöru.
Gangi þér vel! en ég er ekki bjartsýnn á að ríkislögreglustjóri/ efnahagsbrotadeild hafi tíma til svona snattverkefna á álagstímum.
Nú ligga nefnilega margir tignarmenn undir vondu ámæli millistéttarfólks og jafnvel lágstéttarfólks og mikilvægt að embættið svæfi slíka vitleysu með því að drepa sem mestu af því á dreif vegna ónógra málsgagna.
Árni Gunnarsson, 16.2.2010 kl. 16:19
Kennitöluflakkið er reyndar enn meira en ég tek fram í kærunni. Mér yfirsást 365 prentmiðlar en á það fyrirtæki er ég einnig með stefnu. Þetta er eins og sleipur lax sem virðist sleppa endalaust nema maður tæki sér búsetu í Héraðsdómi Reykjavíkur til að standa þeim snúning í þeirra kennitöluflakki.
Ástþór Magnússon Wium, 16.2.2010 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.