Borinn út af borgarafundi. Þjóðin blekkt með leikstýringu.

Þrír fílefldir karlmenn hentu Ástþór Magnússyni á dyr og út á götu úr gamla skrifstofuhúsnæði Byggingarfulltrúans í Reykjavík í gær miðvikudaginn 2 desember við upphaf fundar um skipulag Opins Borgarafundar í Háskólabíó.

Strax og Ástþór kom inn um dyrnar í Borgartúni 3, var honum mætt af Gunnari Sigurðssyni leikstjóra með orðunum „Ástþór viltu fara út og finna þér einhvern annan vettvang“. Aðspurður hvort ekki væri rétt að ræða það á fundinum svaraði Gunnar að þess væri engin þörf. Gunnar sagðist vera með húsnæðið á leigu prívat og persónulega, ekki þetta fólk sem þarna væri mætt.

Eiríkur Stefánsson fyrrum verkalýðsforingi og pistilhöfundur á Útvarpi Sögu stórhneykslaðist á eineltinu og sagði í miklum reiðilestri yfir fundarmönnum að samtökin væru á engan hátt sjálfum sér samkvæm. Hér væri verið að krefjast þess að stjórnvöld hefðu allt uppá borðinu, samtökin fengju áheyrnarfulltrúa í nefndir og á ríkisstjórnarfundi, en samtökin sjálf störfuðu á leynifundum og rækju á dyr þá sem hefðu áhuga á þátttöku í starfinu eða sitja fundi sem áheyrnarfulltrúar.

Ástþór óskaði að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi og þegar því var synjað bað hann um skriflega brottvísun en því var einnig synjað. Stuttu síðar kom aðvífandi þrír menn sem tóku undir handleggi Ástþórs og báru hann þannig út á götu.

Þetta er nokkuð á skjön við yfirlýst markmið á vefsíðunni borgarafundur.org en þar segir „Opinn borgarafundur er breiðfylking fólks sem á það sameiginlegt að vera umhugað um lýðræðislegt stjórnarfar á Íslandi. Félagsskapurinn er ekki flokkspólítískur og er opinn öllum sem áhuga hafa.” Þarna er siglt undir fölsku flaggi því þessum samtökunum er stjórnað af fámennri klíku og eru alls ekki opin öllum.

Í fjölmiðlum hefur verið að koma fram fólk sem kvartar yfir því að komast ekki að sem frummælendur á mótmælafundum. Í kjölfarið velti Ástþór því upp á bloggsíðunni lydveldi.blog.is hvort verið væri að misnota vettvang mótmælenda og nauðsyn þess að innleiða lýðræðislegri leiðir við val á ræðumönnum og spyrjendum. Þar segir m.a.:

“Í Háskólabíó varð ég vitni að því að vörubílstjóra var meinað að bera upp spurningu. Fólk í kringum þennan mann tjáði mér að einhversskonar fyrirmæli hefðu verið gefin út að hleypa honum ekki í loftið. Þar sem ég hafði skráð mig fljótlega eftir fyrsta fundinn á póstlista hjá borgarfundur.org, hef ég fengið sendan póst og hvatningar að kynna fundina. Einnig fundarboð á skipulagsfund.

Ég mætti á slíkan fund tveimur dögum eftir stóra fundinn í Háskólabíó. Þar var borin upp sú tillaga (tek það fram að þessi tillagan var ekki frá mér né tengist mér á nokkurn hátt) að skipta út fundarstjórum með reglulegu millibili. Ég hlustaði á þetta og lagði lítið til málanna annað en ef ætti að skipta út fundarstjóranum væri ekki úr vegi að kona yrði valin næst.

Tillaga og umræður um breytingar á fundarstjórn var kveðin í kútinn eftir að hinn ágæti leikstjóri borgarafundanna sagðist ekki myndi mæta á næsta fund ef þetta ætti að þróast í einhver formleg fundarsköp.

Ekki veit ég hvort það tengist þessari umræðu en ég var snarlega tekinn af póstlista borgarafundarins og fékk ekki sent næsta fundarboð. Frétti frá öðrum að sá fundur var haldinn 1. desember.

Ég er ekki alveg að átta mig á því hvað er í gangi við þessi mótmæli og borgarafundi. Hversvegna ekki er staðið að þessu með óhlutdrægum og lýðræðislegum hætti. Ég hef tekið eftir því að á meðan sumum frummælenda er hafnað af skipuleggjendum, hafa aðrir margsinnis flutt ávörp. Svo ég gerði smá könnun á þeim frummælendum sem hafa komið fram til að kanna hvort einhverjar pólitískar ástæður kynnu að liggja hér að baki.

Könnun mín virðist því miður leiða í ljós að verið sé að misnota vettvang mótmælenda. Síðastliðinn mánuð hafa 70,6% frummælenda á Austurvelli og Arnarhóli tengst Vinstri Grænum. 11,8% tengast öðrum stjórnmálahreyfingum en hjá 17,6% finn ég ekki augljósar tengingar við stjórnmálaflokka. Svipað mynstur er á borgarafundunum í Iðnó og Háskólabíó, þar er meirihlutinn eða 53% sem tengjast Vinstri Grænum.”

Opin borgarfundur var góð hugmynd en því miður virðast annarleg sjónarmið ráða för sem draga þetta annars verðuga verkefni í ræsið. Ljóst er að grandvaralausir fundargestir eru blekktir með leikstýringu.

Í efnahagshruni og kreppu eins og nú er komin upp á Íslandi getur myndast hætta á að öfgaöfl nái undirtökum. Hitler komst þannig til valda í Þýzkalandi á sínum tíma. Nú komið í ljós að stjórnarhættir forráðamanna Opins Borgarafundar eiga meira skylt með aðferðafræði fasista en lýðræði.


mbl.is Forseti ASÍ á borgarafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ástþór og takk fyrir síðast.

Það er ekki öll vitleysan eins heldur aðeins mismunandi, það er þá ekki sama hvort maður heitir Ástþór Magnússon eða Jón Jónsson, eða hvað ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.12.2008 kl. 01:17

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það er algerlega út í hött að tala um þetta sem fasíska stjórnarhætti. Ástþór! Þú stendur fyrir framboði til Alþingis og hefur margsinnis verið í framboði til forseta. Ekkert illt um það að segja en það gerir það að verkum að þú ert ekki sérlega vel til þess fallinn að vera þátttakandi svona þverpólitísku starfi. Ekki frekar en Ómar, Steingrímur J eða Ingibjörg Sólrún. Þú ert forsvarsmaður framboðs og það er mikilvægt fyrir borgarfundinn að verða ekki spyrtur við það framboð.

Hvað varðar hverjir fengu að spyrja á síðasta borgarafundi að þá var tekin sú afstaða að forgangsraða þeim sem ekki höfðu talað áður. Slíkt er eðlileg forgangsröðun og hvað varðar frummælendur að þá eru þeir valdir án flokkspólitískrar skýrskotunar en þar sem fókusinn hefur verið á að starta umræðu um hvað er að í þessu samfélagi er ekki óeðlilegt að leitað sé til fólks sem er í andstöðu við ríkisstjórnina og því ekki skrýtið að sumir þeirra hafi tengst VG sem hefur verið í stjórnarandstöðu frá stofnun fyrir 10 árum síðan.

Ég er verulega hrifinn af borgarfundar-fyrirkomulaginu og tel það ekki vera til framdráttar þínum málstað að tala illa um hann. Við erum ekki sami hópurinn en við hefðum átt að geta verið til staðar án þess að trufla hvort annað. Við krefjumst ekki aðgangs að skipulagningsfundum ykkar hreyfingar en ætlumst til að þið virðið það að skipulagningarfundir okkar eru ekki leið fyrir ykkur að vinna fyrir ykkar málstað. Ef við reynum að gera ekki þessa hluti sem skilja okkur of stóra getum við barist fyrir hvort sínum hlutnum án þess að vera fyrir hvor öðrum. Það er nóg verk fyrir höndum og ég vona að þið hafið nóg að gera án þess að taka þátt í starfi okkar.

Héðinn Björnsson, 4.12.2008 kl. 01:29

3 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Það er mikill misskilingur að ég standi fyrir einhverju sérstöku framboði. Lýðræðishreyfingin sem ég var með í að stofna fyrir 10 árum, hefur lýst því yfir að hún muni sem þverpólitískur vettvangur styðja 126 einstaklingsframboð við næstu alþingiskosningar.

Auðvitað er ekki von á góðu þegar fólk er umvafið fordómum og vill ekki heyra boðskapinn óbrenglaðan og gerir sér fyrirfram ákveðnar hugmyndir um störf annarra án þess að kynna sér málin með opnum huga.

Ég vil einnig benda þér á að embætti forseta Íslands er þverpólitískt embætti. Það er einmitt þessvegna sem ég hef tekið þátt í þeim kosningum til að kynna friðarmálin og hvernig forseti Íslands getur stuðlað að því að Ísland verði alþjóðleg miðstöð á þessu vettfangi og leiðandi í alþjóðlegri lýðræðisþróun.

Að lokum er rétt að geta þess að ég hef alls ekki tekið neina ákvörðun um persónulega þátttöku sem frambjóðandi við alþingiskosningar. Í raun er það frekar ólíklegt enda hef ég aldrei áður ljáð máls á því að starfa á þeim vettvangi.

Mitt aðalmarkmið hér er að leggja hönd á þann plóg að skapa vettvang fyrir fólk úr öllum áttum sem erindi geta átt á þing til rífa upp gamla flokkakerfið og koma á opnara lýðræði. Sjá nánar um hugmyndafræðina á vefnum www.lydveldi.is

Ef þið ætlið að starfa á leynifundum væri athugandi að breyta upplýsingunum um Opin Borgarafund á vefsíðu ykkar svo ekki sé verið að blekkja grandvaralaust fólk eins og mig og aðra að þarna sé komin opinn og lýðræðislegur vettvangur. Við vitum núna með 100% vissu að Opnum Borgarafundi er leikstýrt af litlu klíkusamfélagi. Það sannaðist með ótvíræðum hætti í uppákomunni í gær.

Þú og aðrir eru velkomnir á fundi Lýðræðishreyfingarinnar, og til virkrar þátttöku í þeim samtökum.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 01:47

4 identicon

Ekki hélt ég að ég ætti það eftir að vera sammála Ástþóri Magnússyni í nokkru máli, EN  .... í þessu .. hvað varðar skipulagningu og stjórnun þessara svokölluðu borgarafunda, þá er ég Ástþóri hjartanlega sammála. 

Katrín (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 01:51

5 identicon

Vil bæta því við að það er auðvitað til háborinnar skammar ef leikstjórinn og aðrir skipuleggjendur þessara svokölluðu borgarafunda, leyfa ekki öllum að koma að málinu og segja sínar skoðanir!   Að kasta Ástþóri svona út, nánast með ofbeldi ... mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt.  PLÚS  að ég vona svo sannarlega að það verði fenginn almennilegur fundurstjóri fyrir næsta fund ...... sá síðasti var algjört klúður.

Katrín (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 01:56

6 identicon

"Ástþór óskaði að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi og þegar því var synjað bað hann um skriflega brottvísun en því var einnig synjað"

Þér var ekki meinað að fylgjast með fundinum er það sem áhorfandi ? Nú og ef svo var ekki þá spyr ég.

Hvers vegna þarftu að vera einhver spes áheyrnarfulltrúi ? Af hverju getur þú ekki bara setið eins og aðrir borgarar í stúkunni og fylgst með ? Af hverju að setja sig á svona háann hest ? Þú ert bara borgari eins og aðrir ekki satt ?

Þröstur (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 03:44

7 identicon

Katrín. Gunnar er frábær fundarstjóri. Hann er þessi típa sem fólk vill sjá því allir eru komnir með ógeð á stjórnmálamönnum og loðnum svörum þeirra. (og lygum oft á tíðum) Þó að hann sé sveitó á tíðum þá er hann sannur og fyndin.

Þröstur (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 03:52

8 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Mér var kastað út með ofbeldi. Jú mér var einnig meinað að sitja út í horni og hlusta á fundinn. Ég var borinn út úr húsinu og meira að segja meinað að bíða í ytra andyri eftir bíl, þar var tekið sterklega á og mér í orðins fyllstu merkingu var mér kastað út á götu!

Ég ætla ekki að hafa eftir öll þau orð og skítkast sem ég mátti þola frá þeim sem þér finnst "frábær fundarstjóri".

Á heimasíðunni borgarafundur.org er það sagt vera félagsskapur opinn öllum sem áhuga hafa. Hið sanna er að uppátækið er lokuð klíka örfárra einstaklinga sem líta á Opna Borgarafundinn sem einhverskonar leiksýningu í þeirra einkaeign.

Mér þætti vænt um að Þröstur og aðrir sem skrifa hér ítrekaðar athugasemdir geri það undir fullu nafni og innskráðir á bloggið.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 06:50

9 Smámynd: Neddi

Ástþór, hvað er lýðræði? Er það ekki að lúta vilja meirihlutans? Meirihluti fundarins í gær vildi að þú vikir í burtu þar sem að þú ert í forsvari fyrir stjórnmálaafl, hvort sem að það er þverpólitískt eins og þú segir eða ekki, og hópurinn vill ekki tengja sig við slíkt. Það sem meira er þá var það mikill meirihluti sem að vildi að þú færir, það mikill að aðeins þú og Eiríkur voruð á móti því.

Í sambandi við það að frummælendur séu úr hinum og þessum flokkinum þá veistu það sjálfur eftir þetta ævintýri í gær að frummælendur eru ekki beðnir um flokkskirteini áður en þeir eru fengnir til að tala. Frumskilyrðið er að frummælendur hafi eitthvað að segja. Og er það eitthvað óeðlilegt að þeir sem að tali gegn ríkjandi ástand séu þeir sem að eru á móti sitjandi stjórnvöldum? Þú settir þetta fram eingöngu til að reyna að skemma fyrir. Þetta hafði nákvæmlega ekkert annað upp á sig annað en að reyna að skapa tortryggni  gagnvart þeim sem þó eru að reyna að gera eitthvað. 

Með vörubílstjórann fræga þá veit ég ekki betur en að hann hafi fengið að tala á borgarafundi þó svo að það hafi ekki verið í Háskólabíói. Það eru hins vegar fleiri en hann sem að hafa eitthvað að segja og á að hleypa að. Hann eins og aðrir geta vissulega beðið um orðið á þessum fundum en ef hann kemst ekki nógu framarlega á mælendaskrá þá fær hann einfaldlega ekki að tala því aðrir eru framar. Þetta er einmitt í samræði við lýðræðisleg vinnubrögð. Hefði það verið réttlátt gagnvart öðrum að hleypa þessum annars ágæta manni framfyrir í röðinni?

Svona að lokum þá verð ég að koma því að að þú ekki bara rægir okkur og baknagar á heimasíðu þinni, www.lydveldi.is, heldur gerir það einnig í útvarpsviðtal á Útvarp Sögu og svo heldurðu virkilega að þú getir komið á fund hjá okkur og allt er bara í góðu. Heldurðu virkilega að menn taki svoleiðis löguðu þegjandi og hljóðalaust?

Kv.
Gunnar Gunnarsson

P.S.
Það voru ekki þrír fílelfdir karlmenn sem "báru" þig út heldur gafst einn karlmaður upp á þér og tók í öxlina á þér og fylgdi þér út. Hinir tveir stóðu álengdar en snertu þig ekki.

Neddi, 4.12.2008 kl. 09:03

10 identicon

Það er engum manni til sóma að fótumtroða sannleikann, sama hver á í hlut, Ástþór var sannarlega búinn að vara við þeim hörmungum sem nú ganga yfir okkur af völdum gjörspilltra peningamanna, og koma langsamlega verst og mest niður á almenningi, vitna hér í hann sjálfan frá árinu 1996: "Í forsetakosningunum talaði Ástþór um heim græðgi, valdapots, svika og pretta og sagði Ísland lent í heljargreipum huldumanna sem væru að arðræna þjóðina. Hagkerfið myndi hrynja vegna spillingar í bankakerfinu og fjármálamarkaðir væru að þróast í óábyrg spilavíti. Þörf væri á verulegri endurskoðun og uppstokkun sem Ástþór vildi beita sér fyrir sem þverpólitískt afl frá Bessstöðum. Þetta virtist snerta valdamikla aðila í landinu því mikill undirróður hófst gegn Ástþóri og boðskap Friðar 2000 í kjölfarið"  enn og aftur, það er engum manni til sóma að fótumtroða sannleikann, og gildir þá einu hver á í hlut.

Jón Ingi Kr. (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 09:56

11 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Gunnar, þið gefið ykkur út fyrir að vera samtök opin öllum sem áhuga hafa. Fundunum hefur verið sjónvarpið í ríkisfjölmiðli undir þeim formerkjum að þetta séu samtök opin öllum, og allir hafa þar jafnan aðgang.

Þetta er hinsvegar ekki rétt. Þið siglið undir fölsku flaggi. Það voru fleiri en vörubílstjórinn sem fengu ekki að bera upp spurningu í Háskólabíó. Ég var með mjög þarfa og málefnalega spurningu og bað nær stöðugt um orðið með handauppréttingu en það var einnig ekki virt viðlits. Ég sat á sama bekk stutt frá Sturlu vörubílstjóra og handaupprétting mín fór ekkert framhjá mönnum. Það var ekkert opið eða lýðræðislegt við val á þeim sem báru upp spurningar. Þessu var leikstýrt sem öðru á fundinum.

Á undirbúningsfundinum sem fram fór 26.11 eftir fundinn í Háskólabíó, reyndi ég að bera upp tillögu um hvort ekki væri hægt að finna markvissari og lýðræðislegri leið til að koma fólki að með spurningar á fundunum. Ég var varla byrjaður að bera upp erindið þegar ég var kveðinn í kútinn af leikstjóranum ykkar. Sama átti við þegar ég spurði hvort ekki væri hægt að opna á þann möguleika að fólk af landsbyggðinni gæti sent inn spurningar í gegnum netið t.d. með stuttum video innslögum. Gunnar leikstjóri var einnig fljótur að kveða það í kútinn með þeim orðum að það fólk gæti bara haldið sína eigin borgarafundi. Þessi nálgun er ekki við hæfi við skipulag fundar sem er sjónvarpað og útvarpað um allt land af fjölmiðlum í ríkiseigu.

Eftir þennan fund, þann 26.11 var ég tekin af póstlista og fékk ekki fleiri tilkynningar frá Opnum borgarafundi. Ég var fjarlægður af listanum án nokkurs samráðs við mig sjálfan.

Það er fráleitt að halda því fram að ég sé að reyna að skemma fyrir. Ég hef enga hagsmuni af því að skemma fyrir því að komið sé á lýðræðislegum og opnum borgarafundum. Þvert á móti sé ég mikinn feng í slíkum vettvangi fyrir mig og aðra sem vilja stuðla að jákvæðum breytingum í þjóðfélaginu.

Ég gef ekki mikið fyrir þann JÁ kór sem var saman komin á þessum undirbúningsfundi í gær. Þetta líktist meira einhverskonar nasista fundi Hitlers en lýðræðislegri samkomu.

Þeir sem standa í þjóðmálaumræðu þurfa að geta tekið gagnrýni á störf sín. Slíkri gagnrýni á ekki að svara með fordómum eða með því að bera fólk úr fundarsölum með valdi. Það er aðeins vegna þess hve mikill friðarsinni ég er að ekki kom til handalögmála þarna. Viðmóti einkenndist af yfirgangi og ofbeldi og var með þeim hætti að þetta hefði hæglega geta brotist út í slagsmálum ef þið hefðuð borið ykkur að með þessum hætti við annan en mig.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 10:02

12 Smámynd: Neddi

Við erum opin samtök óháð allri pólitík. Þar sem að þú stendur fyrir lýðræðishreyfingunni þá telum við þig ekki vera óháðan. Þú átt lof skilið fyrir það framtak þitt en á meðan að þú stendur að því teljum við okkur ekki geta verið óháð með þig innanborðs.

Ef þú hefur ekki fengið orðið í Háskólabíói þá hefur það verið vegna þess að aðrir hafa verið á undan þér. Þetta er ekki flókið. Þannig bað t.d. Eiríkur Stefánsson um orðið á Nasa en áður en hann komst að varð að ljúka fundinum. Við höfum því miður ekkí ótakmarkaðan tíma. Hvernig áttum við annars að stýra vali á spyrjendum úr sal? Áttum við að vera með kosningu? Þá er ég hræddur um að lítið hefði orðið um spurningar.

Það hvort að þú hafir verið tekinn af póstlistanum veit ég ekki um enda sé ég ekki um þennan póstlista. En í stað þess að spyrja okkur að því hvers vegna þú varst tekinn af póstlistanum kýst þú frekar að rægja okkur með skrifum þínum og í viðtali á Útvarp Sögu. Hvers vegna leitaðir þú ekki fyrst til okkar til að athuga hvort um mistök hafi verið að ræða eða hvort þér væri viljandi haldið frá þessu? Hvers vegna ákvaðstu frekar að gera úr þér píslarvott? Var það kannski til að auglýsa lýðræðishreyfinguna þína? Ég sé þetta ekki sem neitt annað en tilraun til að skemma fyrir. Ef þú sérð þetta öðrum augum þá verður svo að vera en það eru tvær hliðar á öllum sögum og því verður þessi hlið að koma fram líka.

Það að líkja okkur við nasista segir meira um þig heldur en okkur og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Við höfum tekið gagnrýni á okkar störf og erum meira að segja að breyta aðeins formi fundanna til að mæta þeirri gagnrýni. En ósanngjörn gagnrýni er ekki eins vel þegin. Þess vegna tökum við því ekki þegjandi þegar að þú rægir okkur í fjölmiðlum og reynir að klína á okkur einhverjum Vinstri stimpli sem ekki á við. Þeir sem standa að þessum fundum koma úr öllum flokkum og margir eru óflokksbundnir. Þannig er drjúgur hluti fólksins úr sjálfstæðisflokknum. Þú þarft líka að þola gagnrýni.

Neddi, 4.12.2008 kl. 10:49

13 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Neddi, ég hef ekki rægt ykkur í fjölmiðlum. Ég hef haldið mér við staðreyndir. Þið þurfið að fara í innri naflaskoðun ef vinnubrögðin eru slík að þau þoli ekki dagsins ljós.

Þetta með aðkoma mína að Lýðræðishreyfingunni er ekkert annað en ódýr fyrirsláttur fólks sem er að mála sig út í horn með óvönduðum og ólýðræðislegum vinnubrögðum. Meirihluti fólksins á fundinum í gær tengist stjórnmálaflokkum með einum eða öðrum hætti. Könnun mín á frummælendum sýnir að meirihlutinn tilheyrir Vinstri Grænum.

Lýðræðishreyfingin hefur enn ekki sótt um listabókstaf, hefur ekki tekið þátt í neinu framboði og er þverpólitísk hreyfing eins og skýrt kemur fram á vefnum www.lydveldi.is

Mér sýnist þú þurfa að horfast í augu við þá staðreynd að hér búa aðrar ástæður eða fordómar að baki. Enda hafði ég heyrt af slíku eftir upphafsmanni Opins borgarafundar áður en Lýðræðishreyfingin kom fram á sjónarsviðið nú. Ég vildi hinsvegar ekki trúa því að slíkt gæti verið satt. En nú er þessi ljóta staðreynd komin fram í dagsljósið og sannreynd með ótvíræðum hætti!

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 11:08

14 Smámynd: Neddi

Enn heldurðu áfram.

Þú ert að klína á okkur stimpil sem að á ekki stoð í raunveruleikanum. Hvað með alla þá sjálfstæðismenn sem að eru þarna? Ekki eru þeir til vinstri. Nú heyrði ég að vísu ekki viðtalið við þig á Útvarp Sögu og það er ekki aðgengilegt á netinu svo ég viti en þeir sem heyrðu það túlkuðu það ekki á neinn annan hátt en sem rógburð. Það er búið að útskýra fyrir þér hvernig frummælendur eru valdir. Á næsta fundi verður meira að segja einn af þeim sem að við höfum gagnrýnt frummælandi. Sá aðili tilheyrir öðrum stjórnarflokknum, samfylkingunni. Telst það líka vera ólýðræðislegt?

Það hvort að lýðræðishreyfingin sé komin með listabókstaf breytir engu. Þú auglýsir þig hins vegar í nafni hennar og gerir þig um leið nátengdann stjórnmálaafli sem að við teljum okkur ekki eiga leið með. Þú verður bara að horfast í augu við það.

Neddi, 4.12.2008 kl. 11:26

15 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Þú ert nú ítrekað búinn að vekja athygli á því sjálfur að þarna hafi verið fólk sem hefur tengingu við ýmsa stjórnmálaflokka.

Þú ert í raun að staðfesta að tenging mín við Lýðræðishreyfinguna www.lydveldi.is er alls ekki ástæða þess að mér einum var varpað á dyr með ofbeldi. Ef það hefði verið hefðu flestir þurft að fjúka út af þessum fundi.

Á að skilja orð þín þannig að Opinn borgarafundur telji sig eiga samleið með Sjálfstæðisflokknum eða öðrum stjórnmálaflokkum? Hvernig á þá að skilja framkomu ykkar gagnvart þessum flokkum, er það bara marklaust leikrit?

Það væri nær fyrir ykkur að viðurkenna mistökin og endurskipuleggja samtökin í samræmi við yfirlýst markmið um að vera opin öllum sem áhuga hafa. Á meðan þið notið aðferðir fasista við þetta er ekki hægt að taka mark á þessu.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 11:40

16 Smámynd: Neddi

Þetta fólk, þó að í flokkum sé, er ekki í forystu neins flokkanna ólíkt þér. Ég er líka margbúinn að benda þér á að hópurinn er þverpólitískur þó svo að hann vilji ekki tengja sig við neinn flokk. Við getum ekki gert þá kröfu að fólk segi sig úr þeim flokki sem að það er. En ég get fullvissað þig um það að ef Geir, Ingibjörg, Steingrímur J., Guðjón Arnar eða Valgerður Sverris myndu mæta á svona skipulagsfund hjá okkur þá væru þau líka beðin um að yfirgefa svæðið.

Við eigum ekki samleið með neinum flokki. Skiptir þá engu máli hvort flokkurinn heitir sjálfstæðisflokkurinn, vinstri grænir, lýðræðisflokkurinn eða ZANU-PF .Við eigum hins vegar samleið með fullt af fólki úr öllum flokkkum. Ef þú getur ekki skilið það þá er þér ekki viðbjargandi.

Neddi, 4.12.2008 kl. 11:47

17 Smámynd: AK-72

Ég ætla mér ekkert að bæta við það sem Neddi segir um rangfærslur og dylgjur þi´nar, nema það eitt að ég er ekkert sérlega sáttur við að vera kallaður nasisti, sérstaklega þar sem ég fyrirlít allt það sem nasismin og kynþáttahatur stendur fyrir.

Ef þú vilt biðjast afsökunar á því, þá skal ég vera búinn að krúnuraka mig fyrir næsta fund í Háskólabíó svo þú getir fundið mig.

AK-72, 4.12.2008 kl. 11:54

18 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Ak-72. Ég hef ekki sagt að þú sért nasisti. Ég var að vísa til þeirra aðferðafræði sem virðist í gangi þarna. En ég fagna því ef þú ert tilbúinn að endurskoða vinnbrögðin hvað þetta varðar.

Þetta er það sem ég sagði í greininni:

"Í efnahagshruni og kreppu eins og nú er komin upp á Íslandi getur myndast hætta á að öfgaöfl nái undirtökum. Hitler komst þannig til valda í Þýzkalandi á sínum tíma. Nú komið í ljós að stjórnarhættir forráðamanna Opins Borgarafundar eiga meira skylt með aðferðafræði fasista en lýðræði."

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 12:09

19 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Hér áhugaverð grein sem birtist á annarri bloggsíðu og sem segir það sem segja þarf um þetta mál:

Af síðunni: http://roggi.eyjan.is/

Lýðræðinu fleygt á dyr.

Lýðræði er merkilegur hlutur. Mótmælendur styðjast að jafnaði við þetta hugtak. Þegar fólk safnast saman á Austurvelli er hrópað á lýðræði. Þeir sem þar koma saman telja sig vera hina einu og sönnu fulltrúa lýðræðis hér.

Hvenær er tími til kominn fyrir lýðræðislega kjörin stjórnvöld til að fara frá. Er það þegar 5 þúsund manns mæta eða kannski 36 þúsund? Eða þegar búið er að grýta 250 kg af eggjum? Nú eða kannski þegar skoðanakannanir mæla óánægju yfir 50%? Veit það ekki en veit samt að ekkert er ólýðræðislegt við að stjórnvöld sitji áfram. Kann að vera heimskulegt en ekki ólýðræðislegt.

Mér hefur oft fundist mótmælendur leggja undarlegan skilning í lýðræðið. Nú sást það síðast þegar Ástþór Magnússyni er hent út af OPNUM borgarafundi vegna þess að hann og hans skoðanir passa ekki inn í það sem 99% fundargesta telja vera hina réttu skoðun.

þannig að fundur þessi er varla opinn og lýðræðislegur. Af því að þó fundarmenn komist að þvi með handuppréttingu að þessi maður og hans skoðanir séu ekki velkomnar þá getur það varla verið lýðræðinu hollt að halda bara einni skoðun á lofti.

Lokaður borgarafundur skoðanabræðra er heppilegra nafn á svona samkomum. Ekkert er að því að menn haldi slíka fundi en verra að menn skreyti sig með lýðræðishjali eftir uppákomuna.

Opnar samkomur eins og til dæmis þingfundir kæmust ekki upp með svona fundarstjórn. það er vegna þess að þingið er lýðræðisleg stofnun. Þar sem hver hefur fullan rétt á skoðun sinni og frelsið til þess að koma henni á framfæri óskert á allan hátt.

En fundarstjórar á borgarafundinum lokaða þurfa ekki á lýðræðislegri kappræðu að halda. Þar ræður eitt sjónarmið og ein aðferð til tjáningar. Óvinurinn eru þeir borgarar sem ekki eru með þetta á hreinu. Efinn er óþarfur.

það er lýðræðislegur réttur manna að hafa skoðanir og mótmæla. En þeir menn sem telja sig sjálfskipaða riddara lýðræðis verða að hafa skilninginn á bak við það á hreinu. það virðist eitthvað hafa skolast til þarna.

Þarna var samankominn hópur fólks sem tók lýðræðislega ákvörðun um að vera ólýðræðislegur félagsskapur.

Það er handónýtt.

Röggi.

Greinin birtist á: http://roggi.eyjan.is/

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 12:23

20 Smámynd: Neddi

Bara til að leiðrétta það sem að Röggi skrifar þá var fundurinn í gær ekki Opinn borgarafundur heldur skipulagsfundur fyrir Opinn borgarafund.

Þú ert, eins og aðrir landsmenn, velkominn á Opinn borgarafund í Háskólabíó á næsta mánudag.

Neddi, 4.12.2008 kl. 13:15

21 Smámynd: AK-72

Ástþór, þú líkir stjórnhættum okkar við fasista, þú gefur í skyn að við séum öfgaöfl og að Gunnar sé einhverskonar Hitler. Þar með hljótum við sem erum í þessu starfi með honum, að vera að fylgja eftir þeim háttum, að vera nasistar og fasistar samkvæmtt því sem þú leggur upp með.Svo kemur þú með svona komment í frettum, líkt og stendur hér hjá visir.is:

",,Ég get ekki svarað hvað þeim gekk til en það er alveg ljóst að þetta var alveg meira í ætt við fasískan fund eins og einhvern undirbúningsfund hjá Hitlersæksunni en einhverskonar lýðræðisleg samtök það er alveg ljóst"

Ég ætla mér ekkert að segja meir við þig eftir þessi ummæli sem þú verður að eiga við sjálfan þig. 

AK-72, 4.12.2008 kl. 13:20

22 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Það er ekki hægt að taka ykkur eða leikstýrðar samkomur ykkar alvarlega meðan þið blekkið almenning og troðið lýðræðinu í svaðið með fasískum vinnubrögðum.

Á meðan samtökin eru kynnt undir þeim formerkjum sem koma fram á vefsíðunni borgarafundur.org sem er:

"Opinn borgarafundur er breiðfylking fólks sem á það sameiginlegt að vera umhugað um lýðræðislegt stjórnarfar á Íslandi. Félagsskapurinn er ekki flokkspólítískur og er opinn öllum sem áhuga hafa."

Meðan þessi yfirlýsing er á vef ykkar verður að líta svo á að samtökin séu opin öllum. Ég áskil mér því rétt til að mæta á hvaða fund sem er í þessum samtökum. Þið getið því alveg eins átt von á mér aftur, nema þið gefið út afgerandi yfirlýsingu í fjölmiðlum að "Opinn borgarafundur" sé lokuð klíka eins og fram kom í gær.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 13:28

23 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Spámaður: Ómálefnalegt innlegg sem þetta er ekki svaravert.

Ástþór Magnússon Wium, 4.12.2008 kl. 17:02

24 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ég skal segja það sem þetta fólk þorir ekki að segja þér Ástþór. Ég hef á tilfinningunni að almennt finnist flestum þú vera snargeðveikur og það sé tímaeyðsla og vesen að hafa þig of nálægt.

Páll Geir Bjarnason, 13.12.2008 kl. 03:19

25 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Heill og sæll Páll Geir. Ég er svo sannarlega ánægður að vera ekki settur í flokk með blindri og heyrnarlausri þjóð sem lét skúrkana stela af sér óveiddum fiskinum í sjónum, bankakerfinu og ærunni. Það er ágætt að standa utan við þetta sem "þorpsfíflið" sem enginn vildi hlusta á þegar ég í "einfeldni" minni benti á spillinguna og að dans þjóðarinnar um gullkálfinn minnti mig á ævintýrið um Nýju fötin keisarans.

En gott er að þér líður vel með þetta rugl ykkar Páll Geir.

Ástþór Magnússon Wium, 13.12.2008 kl. 03:27

26 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ég kem ekki nálægt þessari samkomu... Bara tjá eitthvað sem ég hef á tilfinningunni. Kaus þig þó til forseta eitt skiptið, svo vertu góður við mig!

Páll Geir Bjarnason, 13.12.2008 kl. 04:26

27 Smámynd: Hrannar Baldursson

Afar áhugavert mál.

Við krefjumst ekki aðgangs að skipulagningsfundum ykkar hreyfingar en ætlumst til að þið virðið það að skipulagningarfundir okkar eru ekki leið fyrir ykkur að vinna fyrir ykkar málstað. Ef við reynum að gera ekki þessa hluti sem skilja okkur of stóra getum við barist fyrir hvort sínum hlutnum án þess að vera fyrir hvor öðrum. Það er nóg verk fyrir höndum og ég vona að þið hafið nóg að gera án þess að taka þátt í starfi okkar. (Héðinn Björnsson)

Að ræða um 'ykkar' og 'okkar' þýðir að þarna er greinilega lokaður vettvangur, á meðan hann er auglýstur þannig að allir séu í menginu 'okkar', þá eru það aðeins sumir, og hverjir eru það? Jú:

Ástþór, hvað er lýðræði? Er það ekki að lúta vilja meirihlutans? (Neddi)

Þetta er mikil einföldun og misskilningur á merkingu lýðræðis. Ef við gefum okkur að þetta sé rétt merking lýðræðis, þá höfum við í raun engan rétt til að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar, þar sem að hún er lýðræðislega kjörinn meirihluti.

Engum ætti að vera úthýst af opnum fundum. Viðkomandi ætti að minnsta kosti að hafa fullan rétt sem áheyrnarfulltrúi. Þannig virkar lýðræðið. Ef meirihluti fólks í herbergi er á móti því að hafa eina manneskju í herberginu, þá er það ekki lýðræðislegt að víkja viðkomandi í burtu - það hefur einfaldlega ekkert með lýðræði að gera. 

Mér sýnist Ástþór vera hérna í hlutverk Doroty í galdrakarlinum í Oz. Hann kom vissulega auga á annan og stærri galdrakarl, og ekki var hlustað - og nú hefur hann fundið annan.

Ég veit ekki um aðra. En ég hlusta, og sé "opna" borgarafundi með öðru auga hér eftir.

Hrannar Baldursson, 14.12.2008 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband